Ef við ætlum að hafa svigrúm til þess að ríkissjóður stígi inn og deyfi áföll eins og í kjölfar bankahrunsins, í kjölfar Covid og í kjölfar eldanna á Reykjanesi verðum við að reka ríkissjóð með afgangi inn á milli. Áföll eiga eftir að ríða aftur yfir, við vitum bara ekki hver þau verða eða hvenær. Einnig er mikilvægt að ná niður halla ríkissjóðs til að ríkissjóður vinni með Seðlabankanum að því að lækka verðbólgu og vexti. Daði Már Kristófersson, fjármálaráðherra, er gestur Ólafs Arnarsonar í hlaðvarpi Eyjunnar.
Daði Már Kristófersson-3
Eins og fram hefur komið er Daði Már sannfærður um að hallalaus fjárlög náist fyrir árið 2027. Þrátt fyrir óvissuástand í heiminum sýni reynslan að þær spár sem stuðst er við hafi reynst full svartsýnar og afkoma ríkisins jafnan betri en þær gera ráð fyrir. Hann segist hins vegar alls ekki vera að reiða sig á betri afkomu en spár gefa til kynna þegar hann talar um hallalaus fjárlög fyrir 2027.
„Það eru einungis áföllin sem geta haft áhrif til þess að þetta gerist ekki. Við vitum nokkurn veginn hver þróunin er í íslensku samfélagi varðandi bæði umfang hagkerfisins, það er að segja verga landsframleiðslu, og þá hlutdeild ríkisins í því og við höfum sem sagt vandlega ígrundað þetta. Það er mjög mikilvægt að halda til haga langsamlega besta tryggingin fyrir því að við getum tekist á við áföll framtíðarinnar, sem eiga örugglega eftir að ríða yfir en ég veit náttúrulega ekkert hver verða né hvenær, sé að ríkisskuldir séu hóflegar. Að ríkið hafi bolmagn til þess að grípa inn í. Alveg eins og var gert í kjölfar bankahrunsins, í kjölfar COVID, þegar eldarnir á Reykjanesi hófust. Þá var svigrúm ríkisins nýtt til þess að deyfa höggið á samfélagið með því að taka það á ríkissjóð,“ segir Daði Már.
Hann segir að til þess að við getum búið yfir þessu svigrúmi verði einhvern tímann að koma ár þar sem er afgangur af rekstri ríkissjóðs. „Þetta er bara fjárfesting okkar samfélagsins í áfallaþoli samfélagsins og þetta er algjört forgangsmál.“
Það er eins og þú nefndir nú sjálfur með vaxtabyrði ríkissjóðs. Hann deilir henni náttúrlega með mörgum fyrirtækjum og heimilum að vera að borga mjög háa vexti.
„Já, og það er getum við sagt kannski hin ástæðan fyrir því að við höfum lagt áherslu á að ná niður halla ríkissjóðs er að ríkisfjármálin spili með Seðlabankanum í að lækka verðbólgu og vexti. Það er auðvitað grátlegt að horfa til þess að fimmti stærsti útgjaldaliður ríkisins eru vaxtagjöld. Og kannski það sem er enn þá grátlegra er að ríki með margfalda ríkisskuldir á við Ísland eru með lægri vaxtabyrði þannig að þessi háu vaxtagjöld bitna mjög á ríkissjóði.“
Það er hægt að ná á ákveðnum árangri eins og þú segir ef ríkisfjármálin vinna með peningastefnunni, þá skiptir það verulegu máli. En auðvitað horfum við til þess að óvissan og sveiflurnar sem fylgja þessum gjaldmiðli okkar valda því væntanlega að meðan að við erum, meðan að við erum með íslensku krónuna þá verður vaxtakostnaður hærri á Íslandi en annars staðar.
„Ég held að vísu að hann verði sennilega hærri alltaf, en ekki svona mikið hærri. Óvissan um krónuna skapar viðbótarkostnað sem er bara þá sveiflurnar í henni sem að valda því. Til viðbótar getum við síðan sagt að hún er viðskiptahindrun og við sjáum það til dæmis að að það er mjög mikill munur á útboðum ríkisins þegar útboðin eru í krónum eða eða til dæmis í evru. Við fáum miklu hagstæðari tilboð þegar að útboðin eru í evru vegna þess að erlendir aðilar sem líta á íslenska markaðinn sem frekar lítinn annaðhvort taka ekki þátt í útboðum ríkisins þegar þau eru í krónum eða leggja álag til þess að raunverulega fá greitt fyrir áhættuna sem þeir eru að taka, ofan á vöruverðið, sem gerir það að verkum að að það hækkar mjög mikið og þetta er um verulega bara eitt dæmi af fjölmörgum úti í samfélaginu, úti um allt, af þeim viðbótarkostnaði sem lítill gjaldmiðill hefur í för með sér.“
Einnig er hægt að hlusta á Spotify.