Sú saga gengur fjöllum hærra að Andrés Magnússon, fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins, hafi sagt sig úr Sjálfstæðisflokknum. Ekki fylgir það sögunni hver ástæða hinnar meintu úrsagnar sé en spáð er og spekúlerað um að það tengist óánægju Andrésar með Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann flokksins. Andrés var, eins og öll skrímsladeildin, í liði Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur í formannsslagnum sem hún tapaði naumlega fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttur snemma á þessu ári.
Svarthöfði er nú eldri en tvævetur og hefur alla tíð fylgst af áhuga með pólitík og ekki síður því sem mennirnir bak við tjöldin aðhafast. Andrés Magnússon er einmitt einn af mönnunum bak við tjöldin. Raunar er það háborin óvirðing við Andrés að kalla hann „einn af mönnunum bak við tjöldin.“ Andrés er lykilmaður í skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins og alls ekki úr vegi að lýsa honum sem marskálki skrímsladeildarinnar. Það er eitt verst varðveitta leyndarmál í íslenskri pólitík að fyrir hverjar kosningar kemur Andrés til starfa á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins til að skipuleggja og plotta.
Væntanlega er leitun að jafn innvígðum og innmúruðum Sjálfstæðismanni og Andrési Magnússyni. Svarthöfði er því ekki mjög trúaður á sannleiksgildi þeirrar sögu að Andrés sé farinn úr Sjálfstæðisflokknum. Einhvers staðar verður hann að vera og hvert ætti hann svo sem að fara? Í Miðflokkinn? Kannski bjóða krafta sína fram í Umbótaflokki Nigels Farage í Bretlandi eða í frönsku Þjóðfylkingunni? Alternative für Deutschland? Myndu þessir flokkar einu sinni taka við honum?
Þó getur Svarthöfði séð fyrir sér eina sviðsmynd þar sem Andrés skellir hurðum í Valhöll. Kjartan bróðir hans er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Borgarstjórnarflokkurinn er í krísu og margklofinn. Kallað hefur verið eftir því að allir borgarfulltrúar flokksins nema oddvitinn, Hildur Björnsdóttir, verði látnir taka pokann sinn og byggður verði upp nýr og ferskur listi að baki Hildar. Andrés hefur stutt bróður sinn með ráðum og m.a. birt eftir hann mikið til sömu greinina allt að þrisvar til fjórum sinnum í viku í Morgunblaðinu. Ber er hver að baki nema sér bróður eigi.
Vitað er að Guðrún Hafsteinsdóttir hefur mikinn áhuga á uppstillingu flokksins í Reykjavík enda er talið að framtíð hennar á formannsstóli geti oltið á því hver útkoma flokksins verður í sveitarstjórnarkosningunum í vor og þá sérstaklega hvernig til tekst með framboðið í höfuðborginni.
Ekki kæmi það Svarthöfða á óvart þótt Guðrún hafi lagst á árar með þeim sem vilja hreinsa út borgarstjórnarflokkinn og gefa Hildi Björnsdóttur frítt spil til að stilla upp ferskum og spennandi lista sem mögulega gæti höfðað til kjósenda og skapað tiltrú annarra flokka í borginni á að hægt sé að fara í samstarf með Sjálfstæðisflokknum. Slík uppstokkun þýðir óhjákvæmilega að Kjartan, bróðir Andrésar, á sér enga framtíð í borgarstjórnarmálunum og er þar með horfinn á braut úr íslenskri pólitík.
Sé þetta raunin má vel vera að það sé rétt, að Andrés Magnússon hafi sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn. Er þá stórt skarð höggvið í raðir skrímsladeildarinnar. Svarthöfði sér í hendi sér að hjaðningavíg eru rétt að hefjast í Sjálfstæðisflokknum og sér alls ekki fyrir endann á þeim. Eins og staðan er núna hefur Hildur Björnsdóttir forystuna og aðrir borgarfulltrúar væntanlega flestir á útleið, ef ekki allir.