Helgi Fannar Sigurðsson og Hörður Snævar Jónsson gerðu upp vikuna og horfðu í framhaldið í Íþróttavikunni á 433.is.
Keflavík og HK eigast við í úrslitaleik um sæti í Bestu deild karla í dag. Liðin höfnuðu í fjórða og fimmta sæti Lengjudeildarinnar og fóru þannig inn í umspilið.
„Það þarf einhver félagsfræðingurinn að skoða það af hverju það gerist þriðja árið í röð að hvorki liðið í öðru né þriðja sæti fari upp,“ sagði Hörður í þættinum.
Njarðvík hafnaði í öðru sæti og Þróttur í því þriðja. Töpuðu þau í umspilinu.
„Njarðvík endar í öðru sæti og voru búnir að vera besta lið deildarinnar í 18 umferðum, svo gefa þeir aðeins eftir,“ sagði Hörður.
Keflavík fór í þennan leik í fyrra einnig en tapaði þá fyrir Aftureldingu.
„Eina forskotið sem maður sér er kannski að Keflavík hafi verið þarna í fyrra. Maggi (Magnús Már þjálfari Aftureldingar sem fór upp í fyrra) talaði um það í fyrra að honum hafi fundist skipta ótrúlegu máli að vera þarna árið áður.“
Þátturinn í heild er í spilaranum.