Óhjákvæmilegt er að eftirlaunaaldur hækki í Evrópu á komandi árum og áratugum. Meira að segja í þeim löndum þar sem aldurinn er hæstur í dag þarf að hækka hann enn meira, eins og á Íslandi.
Ástæðurnar eru bæði þjóðfélagslegar og heilbrigðistengdar. Fyrst ber að nefna öldrun álfunnar. Í dag eru hlutfallslega fleiri eldri borgarar en áður og þeim fer áfram fjölgandi. Fólk lifir almennt séð lengur en færri og færri börn fæðast. Þetta þýðir að byrði velferðarkerfisins eykst en færri eru til að standa undir henni.
Þá er það heilbrigðisttengdi þátturinn. Eftir því sem meðallífaldur hefur lengst þá hefur heilsan batnað. Fólk heldur bæði heilsunni og þrekinu til þess að vinna lengur en áður fyrr.
En þetta er ekki auðvelt mál. Sumir vilja vinna fram yfir lögbundinn eftirlaunaaldur, og kvarta sáran yfir skerðingum á lífeyrisgreiðslum vegna þeirrar vinnu. Fólk sem líður vel í vinnunni, vill afla sér tekna og vera virkara í samfélaginu.
Aðrir vilja hins vegar komast sem fyrst á eftirlaun. Fá loksins að slaka á eftir áratuga brauðstrit og njóta lífsins. Hlífa liðamótunum og eyða tímanum með barnabörnunum.
Breytingar á eftirlaunaaldri er mjög umdeilt mál. Miklu umdeildara en maður kynni að halda. Því fékk Emmanuel Macron, Frakklandsforseti, að kynnast þegar ríkisstjórn hans lagði fram frumvarp um að hækka eftirlaunaaldurinn úr 62 árum í 64 í ársbyrjun 2023. Vildi Macron í raun hækka hann enn meira, upp í 65 ár.
Mánaðalöng mótmæli hófust, skipulögð af verkalýðsfélögum, sem milljónir tóku þátt í og hundruð slösuðust, bæði mótmælendur og lögreglumenn. Öll spjót stóðu á Macron.
Þrátt fyrir brambolt á þinginu komst löggjöfin á endanum í gegn en hefur hundelt Macron og stjórn hans allar götur síðan. Er hann orðinn einn óvinsælasti stjórnmálaforingi álfunnar og vilja margir snúa löggjöfinni við og lækka eftirlaunaaldurinn á nýjan leik niður í 62 ár. Það er þó ólíklegt að það verði gert, sama hver stýrir landinu.
En Frakkar eru ekki þeir einu sem eru að krukka í eftirlaunaaldrinum. Í vor var það tilkynnt að Danir hygðust hækka eftirlaunaldurinn í skrefum næstu áratugina. Í dag er hann 67 ár, líkt og á Íslandi, og hvergi í álfunni er hann hærri.
Danir hyggjast hækka hann í 68 ár árið 2030, í 69 árið 2035 og loks í 70 ár árið 2040. Hækkunin hafði töluvert meiri stuðning á danska þingingu en hækkunin í Frakklandi, var hún samþykkt með 81 atkvæði gegn 21. En þó voru margir danskir borgarar ósáttir við þetta.
„Við vinnum og vinnum og vinnum, við getum ekki haldið endalaust áfram,“ sagði hinn 47 ára gamli byggingarverkamaður Tommas jensen við miðilinn DK. „Ég er búin að borga skatta alla mína ævi. Það ætti að koma tími þegar maður getur haft tíma til að vera með börnunum og barnabörnunum.“
Fleiri lönd eru að taka þetta skref og gera það með sínu lagi. Í Hollandi er verður eftirlaunaaldurinn hækkaður úr 67 í 70 ár hjá þeim sem eru fæddir eftir 1. Janúar árið 1999. Eftirlaunaaldurinn verður svo bundinn við meðallífslíkur, líkt og vísitala.
Bretar eru að hækka eftirlaunaaldurinn úr 66 í 67 ár árið 2028 og í 68 ár árið 2046. Þjóðverjar eru að hækka eftirlaunaaldurinn úr 65 árum í 67 árið 2029, Spánverjar úr 66 árum í 67 árið 2027 og svo mætti áfram telja.
Á Íslandi er almennur eftirlaunaaldur 67 ára, og er hvergi hærri í álfunni. Vitaskuld hefur sama umræða farið fram hér þó að Íslendingar vinni almennt lengur en flestar aðrar þjóðir. 67 ára viðmiðið var ákveðið fyrir meira en 70 árum síðan þegar meðalævilengdin var meira en tíu árum styttri en nú er. Hún er í raun tímaskekkja.
Talan 67 er reyndar ekki alveg heilög á Íslandi. Snemmtaka lífeyris er möguleg, með takmörkunum, frá 62 ára aldri og fólk sem starfar hjá hinu opinbera getur unnið í föstu starfi til 70 ára aldurs. Í bígerð hefur verið að hækka þann aldur upp í 72 ára.
Enn sem komið er er umræðan um hækkun almenns eftirlaunaaldurs ekki mjög hávær hér á landi og engar kollsteypur boðaðar. Hugsanlega vegna þess að Ísland er eitt af þeim löndum þar sem fólki er enn þá að fjölga, einkum vegna innflutnings fólks, og þrýstingurinn á velferðarkerfið er því ekki að aukast jafn hratt og víða annars staðar í álfunni.
En ekki er ólíklegt að í ekki of fjarlægri framtíð verði þessi umræða tekin af meiri alvöru hér á landi. Til að mynda hvort ekki sé eðlilegt að hækka almennan eftirlaunaldur úr 67 í 70 ár líkt og í Danmörku.
Reikna má þó með sömu andstöðu hér og víðast hvar annars staðar við hækkun eftirlaunaaldurs. Þegar litið er á könnun Prósents frá árinu 2023 um þessa hugmynd sést að 57 prósent landsmanna eru neikvæð gagnvart henni en aðeins 22 prósent jákvæð. 21 prósent svöruðu hvorki né.
Neikvæðasti hópurinn var fólk á aldrinum 18 til 24 ára, 70 prósent þeirra vilja ekki hækka eftirlaunaaldurinn. Það er líka fólkið sem á flesta vinnudaga eftir.