Íslendingar græða minnst allra Evrópumanna á að ganga í háskóla, peningalega séð. Launamunur háskólagenginna og annarra er aðeins 6 prósent á Íslandi en munurinn er langt um meiri í flestum öðrum Evrópulöndum.
Miðillinn The Daily Times greinir frá þessu og eru tölurnar byggðar á skýrslu Evrópuráðsins frá þessu ári.
Borinn var saman launamunur fólks í 36 Evrópulöndum út frá menntunarstigi. Að meðaltali eru háskólamenntaðir með 38 prósent hærri laun en þeir sem eru aðeins með framhaldsskólamenntun og 68 prósent hærri en þeir sem eru með grunnskólapróf. Að meðaltali hækkar hvert ár í skóla laun um 7 prósent.
Minnsti munurinn er á Íslandi, það er aðeins 6 prósent á milli háskólamenntaðra og framhaldsskólamenntaðra. Almennt er munurinn minnstur á Norðurlöndum. Í Noregi er hann 9 prósent og í Danmörku 19 prósent.
Mestur er munurinn hins vegar í suður og austurhluta álfunnar. Til að mynda hækkar háskólagráða laun í Tyrklandi um 62 prósent, 57 prósent í Litháen og 54 prósent í Albaníu.