Þann 7. september síðastliðinn missti ökumaður Teslu-bifreiðar stjórn á henni með þeim afleiðingum að hún endaði á tré fyrir utan veg. Eldur kom upp í kjölfarið.
Vegfarendur sem urðu vitni að slysinu reyndu að koma fólkinu í bílnum til aðstoðar en þeim tókst ekki að opna bílinn. 43 ára karlmaður og tvö níu ára börn brunnu inni og létust í slysinu en þriðja barnið, einnig níu ára, var flutt með þyrlu á sjúkrahús vegna alvarlegra meiðsla.
Í umfjöllun New York Post um málið kemur fram að slysið hafi orðið örfáum dögum eftir að NHTSA, bandaríska umferðaröryggisstofnunin, tilkynnti að hún hefði hafið rannsókn á Tesla Model Y-bifreiðum, árgerð 2021, vegna tilkynninga um að rafstýrð hurðarhandföng geti orðið óvirk.
Að sögn NHTSA hafa borist tilkynningar um að ekki hafi verið hægt að opna bílinn utan frá, meðal annars þegar foreldrar höfðu stigið úr bílnum til að taka barn út eða koma barni fyrir í aftursæti áður en lagt var af stað.
Í frétt Ruhr News er rætt við Roman Jedrzejewski sem kom að slysinu. Hann rekur verslun skammt frá og hljóp að bílnum þegar hann sá hvað hafði gerst.
„Ég tók með mér slökkvitæki en það hafði ekkert að segja. Ég vildi bara bjarga þessu fólki. Ég reyndi að opna bílinn en það virkaði ekki heldur,“ segir hann. „Það virkaði ekkert, fjandinn hafi það,“ sagði hann með tárin í augunum.
Í frétt New York Post kemur fram að önnur sambærileg slys hafi orðið í bifreiðum frá Tesla. Á síðasta ári brunnu fjórir vinir inni í miðborg Toronto þegar bifreið þeirra lenti í árekstri og eldur kom upp í kjölfarið