fbpx
Sunnudagur 21.september 2025
Eyjan

Guðmundur í Brim: Aðildarumsóknin er í gildi – kjósum sem fyrst um framhald viðræðna

Eyjan
Sunnudaginn 21. september 2025 18:00

Guðmundur Kristjánsson í pallborðsumræðum á landsfundi Viðreisnar í dag. Mynd/Viðreisn

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundir Kristjánsson, forstjóri Brims, vill láta kjósa um framhald aðildarviðræðna að ESB fyrr en seinna. Hann segir engan vafa leika á því að aðildarumsókn Íslands sé í fullu gildi þar sem Alþingi hafi aldrei afturkallað hana.

Þetta kom fram í pallborðsumræðum á landsfundi Viðreisnar í dag. Ásamt Guðmundi voru Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, og Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, þátttakendur í pallborðinu en Sigmar Guðmundsson, þingflokksformaður Viðreisnar, stýrði umræðunum.

Allir þátttakendurnir tóku undir það að aðildarumsókn Íslands sé í fullu gildi.

Guðmundur í Brim sagði enn fremur að engin ógn stæði af aðild Íslands að ESB fyrir fyrirtækin í landinu eða neytendur. Hann væri hins vegar skíthræddur við aðild ef hann væri stjórnmálamaður vegna þess að aðild að ESB þýddi að íslenskir stjórnmálamenn gætu ekki lengur úthlutað gæðum til vina og vandamanna að vild. Fundargestir klöppuðu vel og lengi fyrir honum eftir þessi orð.

Sigmar Guðmundsson sagði ljóst að þjóðaratkvæðagreiðsla muni fara fram um framhald aðildarviðræðna, einungis eigi eftir að ganga nákvæmlega frá tímasetningu hennar.

Finnbjörn Hermannsson sagði augljóst að íslenska krónan væri of lítill gjaldmiðill til að nota. Sagði hann að ASÍ myndi hvetja sína félagsmenn til að tala þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna en hvorki hvetja fólk til að samþykkja né hafna. Ef framhald viðræðna verði samþykkt muni ASÍ taka þátt í upplýstri umræðu um kosti og galla aðildar.

Sigríður Margrét Oddsdóttir sagði stuðning við aðild og aðildarviðræður fara þverrandi innan SA og vitnaði í nýja skoðanakönnun um vilja stjórnenda aðildarfyrirtækja samtakanna máli sínu til stuðnings. Sagði hún allt kapp sitt og samtakanna vera á að ná og halda stöðugleika. Það væri hins vegar erfitt hér á landi vegna þess hve kjarasamningar og launahækkanir færu fram úr framleiðniaukningu í hagkerfinu.

Sigmar Guðmundsson benti á að kjarasamningar hér á landi lituðust oft af því að launafólk þyrfti að elta háa vexti og verðbólgu og þar með væri gjaldmiðillinn og sá óstöðugleiki og háu vextir sem honum fylgja orsök þess að oft væri samið um meira en framleiðni stendur undir.

Finnbjörn Hermannsson rifjaði upp að hann hefur komið að kjarasamningum hér á landi í áratugi og alltaf hafi það verið svo í upphafi kjaraviðræðna að atvinnulífið segðist vera staurblankt og ekki geta hækkað laun um svo mikið sem eina krónu. Ávallt þyrfti að brýna fyrir atvinnurekendum, útgerðinni sem öðrum, að forgangsraða útgjöldunum rétt og yfirleitt væri svo samið að lokum. Gerður var góður rómur að málflutningi Finnbjörns á fundinum.

Á fundinum var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir endurkjörin formaður flokksins með um 99 prósent atkvæða. Daði Már Kristófersson var endurkjörinn varaformaður með svipuðum atkvæðahlutfalli og Sigmar Guðmundsson var einnig endurkjörinn ritari flokksins. Enginn bauð sig fram á móti þeim.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Óttar Guðmundsson skrifar: Blús á brautarpalli

Óttar Guðmundsson skrifar: Blús á brautarpalli
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framkvæmdastjóri N1: Það kostar mikið að halda úti eldsneytisinnviðum á Íslandi

Framkvæmdastjóri N1: Það kostar mikið að halda úti eldsneytisinnviðum á Íslandi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Framkvæmdastjóri N1: Látum breytingar koma hratt fram í verðinu – bæði til lækkunar og hækkunar

Framkvæmdastjóri N1: Látum breytingar koma hratt fram í verðinu – bæði til lækkunar og hækkunar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Jón vill breyta þessu við hátíðleg tækifæri – „Þurfum við ekki að taka höndum saman“

Jón vill breyta þessu við hátíðleg tækifæri – „Þurfum við ekki að taka höndum saman“