Matvælaráðuneytið hefur vísað frá kæru ónefnds bónda sem kærði ákvarðanir Matvælastofnunar (MAST) um að leggja á hann dagsektir og svipta hann leyfi til að selja mjólk. Álagning dagsektanna fór þó ekki fram fyrr en búið var að veita bóndanum mjólkursöluleyfið aftur en aldrei kom þó til þess að hann þyrfti að greiða dagsektirnar þar sem þær voru aldrei innheimtar vegna mistaka MAST.
Í apríl síðastliðnum tilkynnti MAST bóndanum með rafrænu bréfi að ákveðið hefði verið að svipta hann mjólkursöluleyfi. Þar sem bóndinn hafði ekki brugðist við fóru starfsmenn Matvælastofnunar með umrætt bréf til hans þremur dögum síðar. Bóndanum hafði hins vegar verið tilkynnt um ákvörðunina með sms-skilaboðum sama dag og bréfið var sent rafrænt, ásamt því að hringt var í hann og umrætt bréf lesið upp. Sex dögum eftir sviptinguna ákvað Matvælastofnun hins vegar að veita bóndanum mjólkursöluleyfi að nýju. Hvað hafði breyst í málinu kemur hins vegar ekki fram í úrskurði Matvælaráðuneytisins.
Þegar aðrir sex dagar voru liðnir tilkynnti stofnunin bóndanum að ákveðið hefði verið að leggja á hann dagsektir, 10.000 krónur á dag. Hvers vegna það var gert kemur heldur ekki fram í úrskurði matvælaráðuneytisins. Vegna mistaka MAST fór innheimta sektanna hins vegar aldrei fram og við meðferð kærunnar hjá ráðuneytinu upplýsti stofnunin að litið væri svo á að ákvörðun um dagsektir hefði verið afturkölluð.
Í kæru bóndans komu fram margar athugasemdir við málsmeðferðina. Sagði hann að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins með því að afturkalla mjólkursöluleyfið án undangenginnar eftirfylgnisskoðunar. Þar sem hann hefði sýnt samstarfsvilja hafi íþyngjandi ákvörðun dagsekta verið ónauðsynleg og í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Í umsögn Matvælastofnunar var því hins vegar hafnað að brotið hafi verið gegn framangreindum reglum stjórnsýslulaga og byggt á því að málsmeðferð stofnunarinnar hafi verið í samræmi við lög og eins áður segir voru dagsektirinar aldrei innheimtar og MAST leit svo á að þær hefðu verið felldar niður.
Í niðurstöðu matvælaráðuneytisins segir að þar af leiðandi hafi ekki legið fyrir nein ákvörðun um dagsektir sem hægt hafi verið að kæra. Kæran hafi þar að auki borist þegar meira en þrír mánuðir hafi verið liðnir frá því að bóndanum var tilkynnt um mjólkurleyfissviptinguna. Kærufrestur hafi þar með verið útrunninn.
Kæru bóndans var þar af leiðandi vísað frá.