Paul Scholes hefur látið stór orð falla um félagaskiptaglugga Manchester United í sumar eftir niðurlægjandi 3-0 tap gegn erkifjendunum í Manchester City um helgina.
Lið Ruben Amorim hefur aðeins safnað fjórum stigum í fyrstu fjórum leikjum tímabilsins og var auk þess slegið út úr deildarbikarnum af Grimsby Town.
Þetta kemur þrátt fyrir umtalsverðar fjárfestingar í leikmannahópinn, United eyddi yfir 200 milljónum punda í stórkaup á Bryan Mbeumo, Matheus Cunha, Benjamin Sesko og markverðinum Senne Lammens.
Goðsögnin Paul Scholes var þó alls ekki hrifinn og beindi gagnrýni sinni sérstaklega að markmannsmálum félagsins.
Þrátt fyrir að Lammens hafi komið frá Club Brugge fyrir 18,2 milljónir punda byrjaði hann á bekknum í grannaslagnum, á meðan Altay Bayindir hélt sæti sínu í byrjunarliðinu. Andre Onana fór svo á láni til Trabzonspor í síðustu viku eftir slæma byrjun á tímabilinu þar á meðal mistök gegn Grimsby í bikarnum.
„Markvarðarstaðan var risastórt vandamál,“ sagði Scholes í BBC Football Daily hlaðvaronu.
„Þurfti virkilega að bíða fram að leiknum gegn Grimsby til að átta sig á því að Onana var ekki að duga?“
„Svo sérðu Donnarumma verða fáanlegan og hugsar: Þetta er tækifærið. Við getum keypt markvörð fyrir 35–40 milljónir punda sem getur varið fyrir okkur næstu 10 árin.“
Scholes bætti svo við: „Ef Manchester United var ekki að skoða Donnarumma þegar hann varð fáanlegur, þá er það glæpsamlegt að mínu mati.“
„Þeir kaupa strák frá Belgíu fyrir 18,2 milljónir punda. Ég held að það segi allt sem segja þarf um stöðuna á markmannsmálum hjá United í dag.“