Rúmum 50 árum eftir einn afdrifaríkasta óaldarinnar sem ríkti á Norður-Írlandi á síðustu öld, Bloody Sunday í Derry árið 1972, hefur fyrrverandi breskur fallhlífarhermaður verið dreginn fyrir dóm ákærður fyrir morð og tilraun til morðs á óvopnuðum borgurum. Hermaðurinn, sem hefur ekki verið nafngreindur, er sagður hafa skotið James Wray, 22 ára, og William McKinney, 26 ára, til bana þann 30. janúar 1972, auk þess að hafa reynt að myrða fimm aðra menn þegar friðsamleg mannréttindaganga kaþólikka í Derry endaði með alræmdu blóðbaði.
Réttarhöldin, sem fara fram í Belfast, hafa vakið mikla athygli á Bretlandseyjum. Á opnunardegi þeirra sat hermaðurinn í vitnastúkunni, hulinn svörtum skjá til að halda nafnleynd sinni. Saksóknari málsins gekk hart fram og sagði hermanninn og aðra kollega hans hafa „skotið á fólk sem var að flýja, án ástæðu og í trássi við skyldur sínar“.
Tugir ættingja fórnarlambanna tóku þátt í mótmælum fyrir utan dómshúsið áður en réttarhöldin hófust en einnig voru hermann mættir til að sýna kollega sínum stuðnings.
Þrettán mótmælendur létu lífið á Bloody Sunday og atburðurinn varð einn af táknmyndum 30 ára átaka á Norður-Írlandi. Árið 1998 var Saville-rannsókninni svokölluðu ýtt úr vör, þeirri dýrustu í sögu Bretlands. Rannsóknin, sem tók 12 ár og kostaði 200 milljónir punda, leiddi í ljós að fórnarlömbin hefðu ekkert til saka unnið heldur verið myrt með köldu blóði.
Skýrslan kom út árið 2010 en níu árum síðar, árið 2019, var áðurnefndur hermaður kærður á grundvelli hennar. Um er að ræða eina fyrrverandi hermanninn sem hefur verið dreginn fyrir dóm vegna málsins. Ekki er vitað um nákvæman aldur mannsins en fram hefur komið að hann sé heilsuveill. Hann neitar alfarið sök í málinu.
„Þetta er stór dagur í baráttu okkar fyrir réttlæti. Það hefur tekið 53 ár að komast hingað, en við vitum að við stöndum á réttu hlið sögunnar,“ er haft eftir John McKinney, bróðir eins af meintu fórnarlömbum hermannsins.