Í lýðræðisríkjum vilja flestir geta rökrætt án þess að hatur eitri umræðuna.
Þegar hatur blossar upp reyna menn því oftast að taka á því áður en það veldur tjóni. En stundum þykir mönnum hentugra að loka augunum.
Þingmaður Miðflokksins talaði nýlega í sjónvarpi um hugmyndafræði. Hún virkaði á marga eins og verið væri að staðsetja tiltekinn minnihlutahóp fyrir utan við mannlegt samfélag vegna kynvitundar sinnar og þannig væri kynt undir hatri.
Andmæli blossuðu upp á samfélagsmiðlum. Þingmaðurinn taldi sig misskilinn. En Ríkisútvarpið tók álitaefnið eigi að síður til áframhaldandi umfjöllunar.
Á laugardag kom svo mikill fjöldi fólks saman á mörgum stöðum á landinu til að mótmæla þjóðarmorðinu á Gaza. Ástæðan var ærin. Þar var skógur af mótmælaspjöldum. Og blóðug höfuðmynd af utanríkisráðherra Íslands fangaði athygli fjölmiðla.
Þessum boðskap á Austurvelli var ekki bara ætlað að kynda undir hatri á einum ráðherra. Hann lýsti um leið hatri á lýðræðinu. Hver voru viðbrögðin? Svar: Þögn.
Ekki er víst að þeir hafi verið fleiri en fingur annarrar handar, sem með þessum hætti hvöttu til hryðjuverks gegn ráðherra í ríkisstjórn Íslands fremur en að beina spjótum að glæpamönnunum sjálfum, leiðtogum Hamas, forsætisráðherra Ísraels og forseta Bandaríkjanna.
En af hverju vitum við ekki með vissu hvort það var lítill eða stór hluti þeirra, sem mættu á Austurvöll, sem stóðu að þessum hatursgjörningi? Af hverju þurfum við að giska á svarið? Af hverju vitum við ekki hvort þetta hatur var boðskapur skipuleggjendanna eða gert í óþökk þeirra?
Svarið felst í þögninni. Enginn þeirra sem að mótmælunum stóðu hefur gagnrýnt hatrið, sem þarna birtist. Það hafa ræðumenn heldur ekki gert. Og Ríkisútvarpið spyr ekki.
Einhverjir kunna að líta svo á að hér sé verið að blanda saman ólíkum hlutum. Það má vera. En hitt er í eðli sínu eins að eitur hatursins hefur alltaf sömu áhrif í samfélaginu hvar og hvernig sem það birtist. Þess vegna er rétt að ræða þessi tvö óskyldu mál í samhengi.
Þögn skipuleggjenda mótmælanna skýrist mögulega af því að þeir hafa ekki viljað skemma heildaráhrifin með því að afneita þessum hluta þeirra.
Vel má líka vera að þögn ræðumanna sé af sömu rót sprottin. Og kannski hefur Ríkisútvarpið ekki spurt af sömu ástæðu. Hugsunarleysi kann þó að skýra þögnina.
Jafnrétti vegna ólíkrar kynvitundar er ekki íslensk uppfinning. Það er ávöxtur alþjóðlegrar umræðu. En Ísland hefur réttilega skipað sér í flokk með þeim þjóðum sem fremst ganga á því sviði.
Eins er með stríðið á Gaza. Viðbrögðin eru ekki íslensk uppfinning. En Ísland fyllir þann flokk Evrópuþjóða sem lengst gengur í því andmæla þjóðarmorðinu og tala fyrir rétti Palestínumanna til sjálfstæðis.
Augljóst er að stefna ríkisstjórnarinnar byggist á því að Ísland áorki mestu í samfloti með þessum þjóðum. Það er ábyrgt og raunhæft.
Við getum líka tekið einhliða ákvarðanir án tillits til þess hvort þær hafa áhrif á hag fólksins sem verið er að hrekja frá heimkynnum sínum. Þá erum við fyrst og fremst að friða eigin samvisku. Það er í góðu lagi.
Hitt er umhugsunarefni að ein og sér getum við þannig lengt aðgerðarlistann en samt náð minni árangri en í samfloti með öðrum.
Svo er ekki unnt að líta fram hjá þeim veruleika að svigrúm Evrópuríkja til þess að beita sér gegn stríðsrekstri Ísraels og Bandaríkjanna á Gaza er þrengra en áður.
Bandaríkin standa nú í hatrömmu viðskiptastríði gegn Íslandi og öllum fyrrum bandalagsríkjum í Evrópu. Og Bandaríkjunum stendur nú á sama um þá ógn, sem fullveldi Evrópuríkja stafar af stríði Rússa gegn Úkraínu.
Raunhæf utanríkispólitík er Íslandi því mikilvæg í þessu máli sem öðrum.
Þótt stjórnmálamenn þurfi að þola margt má ekki gleyma hinu að verðugur málstaður á Austurvelli réttlætir ekki hatrið sem þar birtist.