Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason furðar sig á að vélar við landamæraeftirlit á Keflavíkurflugvelli séu löngu uppsettar og tilbúnar en séu þó enn í plastinu. Spyr hann hverju sæti, enda engin smá fjárfesting við vélarnar.
„Þegar maður kemur heim til Íslands og fer í gegnum vegabréfaskoðun blasa við stórar og miklar vélar sem líklega eru ætlaðar til að skanna passa. Mér hefur sýnst þetta vera hátt í fimmtíu vélar. En þær eru enn vafðar inn í plast og hafa verið lengi í einhver ár held ég bara. Og enn eru vegabréfin skoðuð af venjulegum landamæravörðum sem sitja inni í þar til gerðum stúkum. Hverju sætir? Það er engin smá fjárfesting sem liggur þarna að baki.“
Í athugasemdum við færslu Egils á Facebook bendir einn á að tækin eru löngu tilbúin. „Löggjöfin sem heimila notkun þeirra verður það mögulega einhvern tíma á næsta ári.“ Annar segir: „Vonandi eru þessi tækjakaup og uppsetning þeirra undirbúningur um að við hættum með opnu Schengen landamærin og förum að skanna öll vegabréf.“
Vélarnar tilheyra nýju skráningarkerfi ferðamanna, svokölluðu (ENTRY/EXIT System) sem tekur gildi 12. október 2025. Kerfið skráir komur og brottfarir og á að efla öryggi innan Schengen-svæðisins. Greint var frá samningi embættis ríkislögreglustjóra og Isavia við franska tæknifyrirtækið IDEMIA í desember 2020, þannig að tækin hafa verið lengi í burðarliðnum og löngu tilbúin hér á landi.
Stóð til að taka kerfið í notkun í nóvember í fyrra, en því var seinkað þar sem mörg ríki voru ekki tilbúin fyrir breytingarnar. Kerfið nær til 27 landa ESB, nema Írlands og Kýpur, auk Noregs, Íslands, Sviss og Liechtenstein sem, þrátt fyrir að löndin séu ekki ESB-ríki, eru hluti af Schengen og nýta kerfið. Evrópusambandið stefnir á að kynna EES-kerfið nánar á flugvöllum og landamærum áður en það verður tekið í notkun. Samkvæmt innleiðingarstefnu eigi ríkin að hafa kerfið í hálfum hluta landamærapunktanna eftir þrjá mánuði og fullbúið eftir sex mánuði.
Í frétt á vef lögreglunnar í lok nóvember í fyrra kemur fram að lögreglan og stjórnvöld eru undirbúin fyrir þessar breytingar:
„Undirbúningur hér á landi hefur gengið ágætlega og nauðsynlegum búnaði hefur verið komið fyrir í komusal á ytri landamærum flugvallarins. Þá hafa landamæraverðir fengið þjálfun í notkun búnaðarins og svo verður áfram fram til þess tíma að kerfið verður tekið í notkun. Kerfið mun án nokkurs vafa styrkja landamæraeftirlit á ytri landamærum Schengen ríkjanna. Sex mánuðum eftir innleiðingu á Entry/Exit System verður tekið í notkun ETIAS ferðaleyfakerfi (European Travel Information and Authorisation System) sem mun enn frekar styrkja löggæslu á ytri landamærum Schengen ríkjanna og þar með á Keflavíkurflugvelli. Kerfi ekki ósvipað ESTA (Electronic System for Travel Authorization) ferðaleyfakerfi Bandaríkjanna. Eins og fyrr er lýst munu þessi nýju kerfi efla allt landamæraeftirlit á ytri landamærum á Keflavíkurflugvelli. Íslensk stjórnvöld eru undirbúin fyrir þessar breytingar.“
Á vef Samtaka ferðaþjónustunnar má lesa nánar um kerfið, hvernig það virkar og hverju það á að skila.
Þar kemur fram að Evrópusambandið hefur undanfarin ár unnið að rafrænu skráningarkerfi ferðamanna sem ferðast inn fyrir sameiginleg landamæri Schengen svæðisins – svokölluðu Entry/Exit System(skammstafað EES). Innleiðing skráningarkerfisins mun hefjast 12. október 2025 á öllum ytri landamærum Schengen-svæðisins, þar á meðal á landamærum Íslands. Kerfið mun leysa af hólmi handstimplun vegabréfa og færa skráningu komu og brottfarir ferðamanna til og frá ríkjum utan Schengen yfir í stafrænt form.
Hvað er Entry/Exit kerfið og hvernig virkar það?
Kerfið skráir sjálfkrafa helstu upplýsingar um ferðamanninn, það er nafn, fæðingardag, vegabréfanúmer, fingraför og andlitsmynd, þegar hann fer um ytri landamæri Schengen. Markmið skráningarinnar er að flýta fyrir afgreiðslu á landamærum, bæta öryggi og tryggja nákvæma skráningu um hvenær ferðamenn koma og fara, sem hjálpar til við að koma í veg fyrir ólöglega yfirveru. Kerfið tekur aðeins til borgara utan Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss sem ferðast til eða frá Schengen.
Ísland, sem aðili að Schengen-samstarfinu, tekur þátt í innleiðingu frá 12. október 2025. Samkvæmt ákvörðun Evrópusambandsins verður innleiðingin stigvaxandi og gert er ráð fyrir að henni verði að fullu lokið að sex mánuðum liðnum:
Frá 12. október 2025: Aðeins lítið hlutfall farþega fer í gegnum EES kerfið við brottför.
Hlutfallið hækkar smám saman næstu sex mánuði þar til 100% innleiðing næst.
Fyrstu mánuðina verður kerfið einungis í notkun á Keflavíkurflugvelli.
Að sex mánuðum liðnum verður það komið í gagnið á öllum ytri landamærum Íslands.