„Ég vann í mörg ár með Valtý og hann sýndi mér aldrei annað en ýtrustu samviskusemi í öllu sem hann var að gera. Valtýr var mjög ábyggilegur og vandaður embættismaður að mínu mati. Ég tek hins vegar fram að hér er ég að tala án umboðs, Valtýr svarar fyrir sig en mér blöskra þessi skrif,“ segir Haukur Guðmundsson, fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður í Keflavík. Haukur komst í kastljós fjölmiðla í kjölfar hvarfs Geirfinns Einarssonar 19. nóvember árið 1974. Hann stýrði rannsókn málsins ásamt yfirmanni sínum Valtý Sigurðssyni, sem þá var fulltrúi bæjarfógeta í Keflavík.
Nýlega birti Soffía Sigurðardóttir grein á Vísir.is þar sem hún sakar Valtý um að hafa tekið yfir og afvegaleitt rannsóknina á hvarfi Geirfinns. Soffía kom að gerð bókarinnar Leitin að Geirfinni en höfundur hennar er bróðir hennar, Sigurður Björgvin. Í bókinni er rannsókn Keflavíkurlögreglunnar á málinu gagnrýnd harðlega og höfundur hefur gefið út opinberlega að hann telji hana bera öll merki yfirhylmingar. Er það niðurstaða bókarhöfundar að Geirfinnur hafi látist í átökum við heimili sitt kvöldið 19. nóvember 1974 en hann hafi ekki horfið eftir fund við ókunna menn í Hafnarbúðinni, sem hefur verið sú kenning sem helst hefur verið haldið á lofti.
Eins og margoft hefur komið fram í fréttum hafa aðstandendur bókarinnar, hér eftir kölluð bókarhöfundar til hægðarauka, freistað þess að fá málið endurupptekið á grundvelli gagna sem þeir hafa sankað að sér. Auk upplýsinga í bókinni sjálfri eru þetta gögn sem ekki hafa komið fyrir almenningssjónir. Er þar um að ræða svonefndan 13. kafla bókarinnar. Þar er Valtýr sakaður um að hafa afvegaleitt rannsóknina af persónulegum ástæðum sem hér verða ekki tilgreindar. Einnig er þar maður nafngreindur sem bókarhöfundar telja að sé að öllum líkindum banamaður Geirfinns.
Haukur segist ekki hafa lesið bókina Leitina að Geirfinni og ætli sér ekki að gera það. Hann vill hins vegar meina að áðurnefnd grein Soffíu sé samansafn af rangfærslum. Telur hann að Valtýr ætti að fara í meiðyrðamál vegna skrifanna:
„Það myndi ég gera í hans sporum. En hann ræður auðvitað hvað hann gerir. Ég tala ekki fyrir hann,“ segir Haukur sem bauð blaðamanni á heimili sitt í Innri Njarðvík til að fara yfir grein Soffíu eins og hún horfir við honum. Þeim sem vilja greina athugasemdir hans nákvæmar en hér er gert er bent á bókina Leitina að Geirfinni en einnig má hafa eitthvert gagn af þessum fréttum: hér og hér.
„Ég hef verið að fara yfir pistilinn hennar Soffíu Sigurðardóttur. Þetta eru mjög ómerkileg skrif og sumt helber lygi,“ segir Haukur og staðnæmist fyrst við upphaf greinar Soffíu en þar segir:
„Opinbera sagan um hvarf Geirfinns í Keflavík þriðjudagskvöldið 19. nóvember 1974, fyrst í Keflavíkurrannsókninni og síðar í hinu fáránlega Guðmundar- og Geirfinnsmáli í Reykjavík, er svona: Geirfinnur hvarf af því hann fór að hitta vonda menn við Hafnarbúðina í Keflavík og þeir óku með hann á brott og skiluðu honum aldrei aftur. Ástæða þess er sú að þeir voru glæpamenn sem stunduðu smygl og Geirfinnur var á einhvern óskiljanlegan hátt flæktur í það athæfi þeirra.
Ekkert af þessu gerðist.“
Haukur bendir á að það hafi verið fullkomlega eðlilegt að tengja rannsóknina við spírasmygl, fyrir því hafi verið gildar ástæður. „Við þessa rannsókn kom smygl verulega við sögu, sérstaklega 20 lítra brúsar sem fundust í Hafnarfirði. Þannig að það var nú meðal annars ástæðan fyrir því að menn fóru að athuga smyglmál.“
Spurning blaðamanns: En af hverju tengja það strax við Geirfinn?
„Vegna þess að kunningi Geirfinns spurði hann hvort hann gæti meðhöndlað þennan spíra, það komst sjór í brúsann og hann spurði hvort hann gæti meðhöndlað spírann þannig að hann næði saltinu úr honum. Það var ástæðan fyrir því að við komumst yfir brúsann. Þetta undirstrikar bara að það var af góðri ástæðu sem rannsóknin var færð í þessa átt.“
Spurning blaðamanns: Sumir myndu segja að það hafi ekki verið minna brýnt að rannsaka heimilisaðstæður Geirfinns.
„Já, þær voru auðvitað athugaðar. Við tókum skýrslu sem liggur fyrir, skýrslu af eiginkonunni.“
Spurning blaðamanns: Það kemur fram í bókinni að hún hafi verið margsaga um til dæmis hvar hún var þetta kvöld. Hún segist til dæmis hafa verið á bókasafninu en það var lokað.
Haukur svarar því til að hann hafi ekki lesið bókina og gagnrýni hans er beint að margrumræddri grein Soffíu. Hann áréttar punktinn um spíratenginguna: „Það voru gríðarlega miklir peningar í sprúttsölu á þessu tímabili, mikið magn í umferð og við vorum meðal annars að leita að ástæðu.“
Spurning blaðamanns: En er það ekki síður möguleg ástæða sem vert er að kanna að þarna er kona sem sjálf hefur greint frá því í skýrslutökum að hún hafi verið ótrú manninum sínum og það er þarna til staðar maður sem átti vingott við hana?
„Við vissum það. Það liggur fyrir að við vissum það af því hún sagði okkur það.“
Haukur staðnæmist við ásakanir Soffíu í Vísis-greininni um að dylgjað hafi verið um aðkomu Geirfinns að smygli. Í grein Soffíu segir:
„Margt hefur verið sagt um það ranglæti sem fólst í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og réttlætis krafist fyrir þau sem þar voru ranglæti beitt. En maðurinn sjálfur sem hvarf, varð aukapersóna í sínu eigin mannshvarfi og æra hans dregin niður í svaðið með ítrekuðum og algjörlega ósönnum dylgjum um aðkomu hans að smygli.“
Haukur segir: „Það liggur fyrir í gögnunum, eins og ég sagði áðan, að það var þarna spírabrúsi sem við vorum að vinna með, 20 lítra brúsi. Það liggur fyrir að Geirfinnur var beðinn um að meðhöndla þennan spíra. En Geirfinnur hafði svarað því til að hann skyldi athuga það og gerði aldrei neitt í málinu.“
Varðandi fullyrðingar Soffíu um að Geirfinnur hafi ekki farið til fundar við mann í Hafnarbúðinni kvöldið sem hann hvarf þá er Haukur staðfastur um það að niðurstöður rannsóknarinnar um þetta atriði hafi verið réttar:
„Það liggur fyrir að hann fór í Hafnarbúðina þetta kvöld á stefnumót við einhvern. Hann fór tvisvar í Hafnarbúðina þetta kvöld, í fyrra skiptið keyrði Þórður, félagi hans Geirfinn. Hann á að hafa sagt við Þórð að það hafi kannski verið rétt að fara vopnaður til að hitta þessa menn.“
Blaðamaður bendir Hauki á að í skýrslu sérstaks saksóknara, Láru V. Júlíusdóttur, frá árinu 2003, um ástæður þess að Leirfinnsstyttan fræga líktist Magnúsi Leopoldssyni, virðist Þórður vilja draga úr þessum framburði. Að Geirfinnur hafi verið með einhvern fyrirslátt og hann hafi einfaldlega ekki nennt að fara í bíó með honum, en Geirfinnur var samkvæmt rannsókn Keflavíkurlögreglunnar að fara til fundar við mann eða menn í Hafnarbúðinni og gat því ekki farið í bíó. Haukur segist hvorki hafa lesið þessa skýrslu né margnefnda bók, Leitin að Geirfinni:
„Staðreyndin er allavega sú að Þórður keyrir hann niður á bryggjuveg og þar stígur Geirfinnur út úr bílnum áður en hann er kominn í sjónmál við Hafnarbúðina. Það er staðreynd í málinu. Þetta getum við kallað leynifund en það voru ástæður fyrir því að við vorum að skoða Hafnarbúðina og mannaferðir þar í kring.ׅ“
Blaðamaður bendir Hauki á að samkvæmt bókinni hafi maðurinn sem hringdi í Hafnarbúðinni verið Jón Grímsson, starfsmaður við Sigöldu, en hann hafi ekki hringt í Geirfinn. Haukur svarar því á móti að Jón Grímsson sé ekki að finna í hans gögnum og hann hafi aldrei hitt þann mann. Leirfinnur hafi verið annar maður en sá maður hafi aldrei fundist.
„Þessar hugmyndir Soffíu um það að við höfum búið til einhverja ryðbletti þarna eru alls ekki réttar. Það voru þarna handfestar kenningar á ferðinni.“
Spurning: Kannast þú við það að Valtýr hafi skrifað töluverðan slatta af skýrslum og látið þig undirrita þær?
„Ég man ekki eftir því en ég útiloka það ekki. Valtýr skrifaði mikið, var snöggur að vélrita og skrifaði heilmikið.“
Spurning: Tóku menn kannski ekki alvarlega á þessum tíma hver skrifaði og hver undirritaði?
„Jú, menn áttu svo sem að vita hvað þeir voru að skrifa undir.“
Aðspurður neitar Haukur því sem bókarhöfundar halda fram, að Valtýr hafi tekið töluvert af yfirheyrslum sem hann, Haukur, hafi ekki vitað um.
„Ég vann í mörg ár með Valtý og hann sýndi mér aldrei annað en ýtrustu samviskusemi í öllu sem hann var að gera.“
Blaðamaður bendir á að mjög snemma í rannsókninni hafi verið farið að tengja hvarf Geirfinns við spírasmygl en þar var þó aðeins þessi eina tenging sem hann hefur þegar nefnt. Haukur játar því að ekkert fleira hafi fundist. Blaðamaður spyr hvort lögreglan hafi ákveðið fyrir fram að hvarf Geirfinns hafi tengst spírasmygli en Haukur neitar því.
Blaðamaður spyr ítrekað hvers vegna ekki hafi verið lagt meira upp úr því að ræða við Svanberg, elskhuga Guðnýjar eiginkonu Geirfinns, sem bókarhöfundar telja hafa verið á vettvangi er Geirfinni var ráðinn bani. Haukur bendir á að rannsóknarmenn í Reykjavík sem aðstoðuðu við rannsóknina hafi ekki heldur haft áhuga á að ræða við Svanberg og auðvelt hafi verið að ná til hans þar sem hann bjó í Berlín. „Hvers vegna átti að ræða við Svanberg?ׅ“ spyr Haukur og blaðamaður svarar því til að samkvæmt bókarhöfundum hafi hann verið sjónarvottur að láti Geirfinns.
Haukur gefur lítið fyrir þessar tilgátur. Blaðamaður spyr hann út í drápsöskur sem nágrannar segjast hafa heyrt frá heimili Geirfinns þetta kvöld. „Ég er búinn að heyra svo margar kjaftasögur um þetta mál og fram að þessu hef ég verið vændur um að hafa ýtt málinu úr réttum farvegi, en núna er allt í einu kominn annar sökudólgur, Valtýr.“
Samkvæmt gögnum Keflavíkurrannsóknar Geirfinnsmálsins hélt Geirfinnur tvisvar til fundar við ókunnugan mann í Hafnarbúðinni kvöldið sem hann hvarf, 19. nóvember árið 1974. Eftir að hafa gripið í tómt í fyrri ferðinni og komið heim fór hann út aftur. Sonur hans á að hafa svarað í símann, kallað til föður sinn sem sagði í símann: „Ég kom, ég kem.“ Og fór svo aftur út til fundar við hinn ókunna mann í Hafnarbúðinni.
Bókarhöfundar telja eftir ítarlega skoðun sína á rannsóknargögnum að þetta sé alrangt. Geirfinnur hafi ekki farið til fundar við nokkurn mann í Hafnarbúðinni heldur farið þangað einu sinni til að kaupa sér sígarettur. Hann hafi síðan verið tekinn upp í bíl af tengdum manni og honum ekið heim til sín. Þar hafi hann látið lífið í átökum. Soffía orðar þetta svo í grein sinni á Vísi:
„Geirfinnur skrapp í Hafnarbúðina til að kaupa sígarettur. Hann kom heim aftur um kl 22:15 og korteri seinna hafði hann verið drepinn í bílskúrnum sínum. Strax og hann kom heim, kemur hann inn í aðstæður sem urðu til þess að hann snöggreiddist. Um það bera vitni nágrannar sem heyrðu hávaða og reiðiraddir, inni í húsinu, utan við dyrnar á innkeyrslunni framan við bílskúrinn og loks svakaleg öskur úr bílskúrnum. Og frekari vitnisburðir sem ég rek ekki hér.“
Samkvæmt bókinni margumræddu voru börn Guðnýjar og Geirfinns ekki heima þetta kvöld heldur hjá foreldrum Guðnýjar í Njarðvík. Telja höfundar að vitnisburður sonar Geirfinns sé uppspuni. Sonur Geirfinns, sem er um sextugt í dag, hefur ekki viljað tjá sig um málið, en Haukur segir:
„Ég hef ástæðu til að rengja þetta því ég talaði við soninn sjálfur. Ekki þarna um kvöldið heldur tveimur kvöldum seinna.ׅ“
Haukur spyr: „Hvað var bíll Geirfinns að gera niður á höfn?“ Blaðamaður segir bókarhöfunda halda því fram að bílnum hafi verið komið fyrir þar til að afvegaleiða rannsóknina. Haukur gefur lítið fyrir þær kenningar og ítrekar að hann hafi ekki lesið þessi skrif. Athugasemdir hans takmarkast við grein Soffíu.
„Öll þau ár sem ég vann með Valtý stóð hann aldrei í neinu baktjaldamakki. Mér vitanlega var hann með okkur í þessari rannsókn af heilum hug og fullri einurð,“ segir Haukur og bendir á meinta veilu í grein Soffíu:
„Valtýr, þú nýttir þér þráhyggju Kidda Pé sem var með nokkra erkióvini á perunni og leyfðir honum að flækja allskonar söguburði um dularfullar mannaferðir og bíla í námunda við Hafnarbúðina inn í rannsóknina á hvarfi Geirfinns. Þú leiðst það líka að Kiddi Pé spreðaði ljósmyndum af Magnúsi Leópoldssyni, einum af erkióvinum sínum, til að reyna að koma honum inn í hlutverk Leirfinns. Verst er þó að þú lést þér vel líka að Kiddi Pé bjó til sína eigin eftirmynd af Magnúsi Leópoldssyni, í svonefndu Photofit kerfi, þar sem eftirmyndir af mannshöfðum voru búnar til með því að raða saman borðum sem sýndu mismunandi útfærslur af hári og andlitshlutum. Síðan tók hann ljósrit af þeirri andlitsgerð sem notuð var til að móta Leirfinn eftir. (Sjá bls 114-152 í Leitin að Geirfinni).“
Umræddur Kiddi Pé er Kristján Pétursson, þáverandi yfirmaður tollgæslunnar, sem beitti sér af miklum móð gegn spírasmygli á þessum tíma og blandaðist inn í rannsókn Geirfinnsmálsins. Haukur segir hins vegar um þennan punkt:
„Kiddi Pé kom þarna hvergi nærri, það var ég sem sendi sjónarvotta úr Hafnarbúðinni til rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík til að reyna að gera mynd af viðkomandi. Valtýr kom ekkert nálægt því. Þetta er bara haugalygi og Soffía veit betur. Þannig er lygi að Kristján Pétursson hafi komið eitthvað þarna nálægt. Hann var upphaflega tengdur inn í málið til að skoða farþegalista með flugi, sem hann gerði. Síðan sukkum við í þetta spíramál og hann var með í því.“
Haukur segir þetta hafa átt sér stað áður en hin svonefnda Leirfinnsstytta var gerð en hún var talin svipa mjög til Magnúsar Leopoldssonar, sem sat um langt skeið í gæsluvarðhaldi, grunaður um aðild að hvarfi Geirfinns. Haukur segir rangt að það hafi verið með ráðum gert.
Spurning: Af hverju líkist leirmyndin svona Magnúsi Leópoldssyni?
„Ég hef ekki hugmynd um það. Af hverju í ósköpunum hefðum við átt að gera leirmynd af Magnúsi?“ Haukur á við að þeir hafi ekki haft ástæðu til að láta gera leirmynd sem líktist Magnúsi þar sem þeir áttu ljósmynd af honum og það hafi verið miklu nærtækara að sýna sjónarvottum þá mynd fremur en að hlutast til um að leirmynd sem líktist honum yrði gerð.
„Það var eitt sem búið var að gera sem Valtýr kom ekki nálægt. Vitni, afgreiðslustúlka úr Hafnarbúðinni, var í tvo daga að fletta vegabréfamyndum og ökuskírteinum á lögreglustöðinni í Reykjavík til að vita hvort hún fyndi þennan mann. Hún var lykilvitni.“
Blaðamaður víkur aftur sögunni að kenningu bókarhöfunda um að Geirfinnur hafi látist í átökum við heimili sitt og þar hafi verið sjónarvottur, 11-12 ára drengur, en sá maður er á lífi í dag og um sextugt:
„Ég er búinn að heyra þessa sögu annað slagið í kjaftasöguformi.“
Spurning: Þú lítur þá á þetta sem kjaftasögu, að þetta hafi ekki gerst.
„Mér þykir það vera gríðarlega langsótt.“
Spurning: Af hverju svona langsótt?
„Til dæmis, í mínum huga væri einkennilegt ástand að planta bílnum hans Geirfinns þarna niðri við bryggju. Og það er náttúrulega ljóst að hann fer að heiman. Aftur. Hann fer tvisvar að heiman þetta kvöld, kemur ekki aftur í seinna skiptið. En ég vil helst ekki segja neitt um skrif systkinanna af því ég veit bara ekkert um þau. Ég er bara að reyna að skýra það sem ég veit, samanber þetta að Kristján Pétursson hafi verið að búa til einhverja andlitsmynd til að blekkja með, þá hefði hann væntanlega verið kominn í lið með Valtý. Það var bara lögreglumaður sem var í þessu fyrir okkur, Kjartan Sigtryggsson, hann var í þessum málum aðallega.
Það er ótrúlega erfitt að koma Valtý í hlutverk í þessu leikriti. Hann var ekki að ráðskast með rannsókn málsins, það voru fleiri lögreglumenn að vinna við rannsókn málsins, samanber að flestir lögreglumennirnir tóku við ábendingum í síma.“ Segir Haukur að þrír til fjórir lögreglumenn auk Valtýs og Hauks hafi komið að rannsókninni í hlutastarfi.
„Hér kemur enn ein lygasagan,“ segir Haukur síðan og les upp úr grein Soffíu:
„Valtýr, þú talaðir við varðstjóra lögreglunnar á Hvolsvelli sem var með starfsstöð í Sigöldu og í gegnum hann fékkst þú upplýsingar um hverjir þar þekktu Geirfinn og að þar væri maður sem hefði farið til Keflavíkur á þriðjudagskvöldinu og fengið að hringja í einhverri sjoppu, klæddur eins og maðurinn sem hringdi úr Hafnarbúðinni. Þú sendir lögreglumann í snarhasti upp í Sigöldu til að tékka á því hvað þessi maður hefði að segja. Það var að fengnum þeim niðurstöðum sem þú gafst fjölmiðum grænt ljós á að birta myndirnar af leirhausnum og snúa þar með leitinni frá Geirfinni í leitina að Leirfinni.“
„Þetta er allt tóm lygi, það get ég sagt vegna þess að það var ég sem sendi lögreglumann upp í Sigöldu, sem heitir Skarphéðinn Njálsson. Valtýr kom hvergi nálægt þessu.
Spurning: Það gat ekki verið hvorttveggja?
„Nei, það er alveg fráleitt.“
Haukur telur að ekkert samband sé á milli Guðmundar- og Geirfinnsmálsins. „Það hefur hvergi komið fram neitt sem tengir þau.“
Spurning: Þú hefur ekki verið trúaður á að sakborningarnir í Geirfinnsmálinu sem síðan voru sýknuð við endurupptöku málsins hafi verið sek?
„Nei, ég hef enga trú á því. Ég var einna fyrstur til að segja þetta opinberlega, í viðtali við Sigurstein Másson í heimildarmynd hans, fyrir áratugum síðan. Ég var mjög tortrygginn á þessar niðurstöður. Ég þekkti það á eigin skinni að það er enginn vandi að fá eitthvert vandræðafólk til að viðurkenna næstum hvað sem var ef maður var með pressu á það. Þá gat það sagt það sem maður vildi. Þess vegna gætti maður sín á því við yfirheyrslur yfir fólki að teyma það ekki í einhverjar ófærur.“
Spjallið fer dálítið í hringi og auðvitað er margt rætt utan dagskrár eins og gengur. Áður en blaðamaður slökkti á upptökunni ítrekaði Haukur gott álit sitt á Valtý Sigurðssyni. Aðspurður sagði hann að þeir væru ekki í miklu sambandi:
„Nei, en Valtýr er vinur minn. Ég vann undir hans stjórn í einhver ár í Keflavík og get ekkert sagt nema gott um hann, mjög ábyggilegur og drífandi embættismaður. Að hann hafi verið að fífla mig fram og aftur í þessu máli er algjörlega fráleitt.“