fbpx
Miðvikudagur 03.september 2025
Fréttir

Segja eitt stórt vanta í nýja kanónu sænskrar sögu og menningar

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 2. september 2025 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrr í dag kynnti Parisa Liljestrand menningarmálaráðherra Svíþjóðar svokallaða kanónu sænskrar menningar og sögu. Kanónan er listi yfir 100 mikilvægustu, bókmenntaverk, tónverk, kvikmyndir, leikrit, fræðirit, atburði, uppfinningar, breytingar á stofnunum þjóðfélagsins o.s.frv. í sænskri sögu. Stefnan er að allt það sem er á listanum þekki hver einasti Svíi og sem flestir frá öðrum löndum. Gerð hefur þó verið athugasemd við að á listanum sé ekkert minnst á þekktustu og áhrifamestu hljómsveit sænskrar sögu – ABBA.

Í umfjöllun sænska ríkisútvarpsins SVT kemur fram að menningarmálaráðherrann hafi í kynningunni lýst furðu sinni á gagnrýni sem beinst hafi að gerð kanónunnar. Haldið hafi verið fram að við gerð hennar hafi legið að baki einhver annarleg sjónarmið en það eigi sér enga stoð í veruleikanum.

Ákveðið var þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum árið 2022 að koma saman sænskri kanónu meðal annars að danskri fyrirmynd. Verkefnið hefur hins vegar hlotið töluverða gagnrýni meðal annars frá sænsku akademíunni, sem sér um að úthluta Nóbelsverðlaunum í bókmenntum, og fleiri aðilum í fræðasamfélaginu og menningarlífinu í Svíþjóð til dæmis sænska rithöfundasambandinu. Lars Trägårdh prófessor í sagnfræði leiddi starf nefndar sem setti kanónuna saman en nefndin var meðal annars kærð fyrir að líta framhjá þjóðernisminnihlutahópum landsins í starfi sínu. Trägårdh segir að erfitt hafi verið að setja saman listann og ákveða skiptingu í flokka og hvað ætti að vera mikið af listaverkum, hvað mikið af sögulegum atburðum og hvað mikið af uppfinningum o.s.frv. Sjálfur hafi hann verið mjög efins um að það gengi upp að setja þetta allt á einfalda lista.

Hvað á að vera?

Almenningur fékk að koma með tillögur og m.a. var lagt til að frægir sænskir réttir færu í kanónuna. Fyrr á þessu ári viðurkenndi Trägårdh að verkefnið væri í þjóðernissinnuðum anda en það hefur löngum verið umdeilt í Svíþjóð hvort ganga eigi lengra í þá átt að gera út á sænskt þjóðerni og fagna því sem sænskt er og nýja kanónan hefur verið gagnrýnd á þeim forsendum að ráðist hafi verið í verkefnið fyrst og fremst á þjóðernissinnuðum forsendum. Fullyrt er að hinn þjóðernissinnaði flokkur Svíþjóðardemókrata sem á ekki sæti í ríkisstjórninni en ver hana vantrausti á þingi hafi beitt sér einna mest fyrir gerð kanónunnar. Stjórnmálaskýrendur SVT segja kynningu kanónunnar í dag vera sigur fyrir flokkinn.

Liljestrand menningarmálaráðherra segir að í fáum rannsóknarverkefnum hafi farið jafn umfangsmiklar umræður og við gerð kanónunnar.

Nefndin sem tók kanónuna saman skipaði síðan undirnefndir fyrir hvern og einn flokk.

Í kanónunni eru eins og áður segir 100 verk, atburðir o.fl. en meðal bókmenntaverka eru Lína Langsokkur eftir Astrid Lindgren og Gösta Berlings saga eftir Selmu Lagerlöf. Þar er einnig að finna kvikmyndina Sjöunda innsiglið í leikstjórn Ingmar Bergman og leikritið Draumleikur eftir August Strindberg. Þegar kemur að stofnunum samfélagsins eru í kanónunni meðal annars fæðingarorlof feðra, sjálf Nóbelsverðlaunin og auðvitað fyrsta IKEA-verslunin sem opnuð var í Älmhult árið 1958.

Þegar kanónan var kynnt spurðu margir Svíar í netheimum hvers vegna hljómsveitin ABBA kæmi þar hvergi við sögu. Skilyrði fyrir því að rata í kanónuna var raunar að vera eldra en 50 ára. ABBA starfaði fyrst frá 1972-1982 en vakti fyrst verulega athygli utan Svíþjóðar með sigri sínum í Eurovision 1974 en náði hátindi heimsfrægðar sinnar eftir 1975 og féll því tæknilega séð utan tímamarka kanónunnar. Raunar var það lagt til við nefndina að ABBA yrði tekin með og einnig komu fram tillögur um að lög sveitarinnar Dancing Queen og Waterloo fengju sess í kanónunni. Ekkert varð hins vegar af því og þar með er sænska kanónan án vinsælustu og áhrifamestu hljómsveitar í sögu Svíþjóðar.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Segir það hafa verið rangt að halda því fram að Úkraína gæti unnið stríðið

Segir það hafa verið rangt að halda því fram að Úkraína gæti unnið stríðið
Fréttir
Í gær

Hjónum í Vík þakkað ómetanlegt starf í þágu samfélagsins – Ætluðu að starfa í 1 ár en þau eru orðin 40

Hjónum í Vík þakkað ómetanlegt starf í þágu samfélagsins – Ætluðu að starfa í 1 ár en þau eru orðin 40
Fréttir
Í gær

Spáir gjaldþroti Play – „Nú er verið að selja ferðir sem við vitum að verða ekki flognar”

Spáir gjaldþroti Play – „Nú er verið að selja ferðir sem við vitum að verða ekki flognar”
Fréttir
Í gær

Hallgrímur kjaftstopp eftir að hafa lesið athugasemdirnar – „Hvað varð um þjóðina mína?“

Hallgrímur kjaftstopp eftir að hafa lesið athugasemdirnar – „Hvað varð um þjóðina mína?“