Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), ræddi flugbransann hérlendis, þar með stöðu flugfélagsins PLAY, og brot á vinnumarkaðsreglum í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Á heimasíðu FÍA segir í grein að íslenskir flugrekendur brjóti reglur vinnumarkaðar, stjórnvöld séu máttlaus í málaflokknum og launþegar sitja eftir með sárt ennið.
„Kveikjan að þessu er í raun og veru þetta Bláfuglsmál, lítið flugfélag sem var stofnað hérna rétt fyrir aldamótin síðustu af flugmönnum og var með kjarasamning við FÍA og rekið bara við góðan orðstír í mörg ár. Í byrjun árs 2021 í miðjum kjaraviðræðum er öllum flugmönnum sem eru á kjarasamningi sagt upp störfum.”
FÍA stefndi Bláfugli fyrir Félagsdóm vegna ólögmætra uppsagna og vann málið. Bláfugl svaraði með lögbannskröfu fyrir sýslumanni, fór fyrir héraðsdóm og Landsrétt, og tapaði á báðum stigum. FÍA fór í skaðabótamál vegna ólögmætra uppsagna og vann málið í héraðsdómi og Landsrétti, sem Jón segir mikilvægar dómsniðurstöður, kjarasamningarnir sem slíkir eru viðurkenndir og forgangur manna til þessara starfa viðurkenndur og dæmdar bætur. Síðastliðinn ágúst eftir kvörtun til yfirvalda um að bregðast við segir Jón fyrrverandi og núverandi félagsmálaráðherra ekkert hafa gert í málinu, eftirlitsaðilar eins og Samgöngustofa og aðrir hafi í engu sinnt sínu hlutverki.
„Það sem að gerist 14. ágúst er að félagið er gefið upp til gjaldþrotaskipta, þvert á það sem fyrrverandi forstjóri hafði lýst yfir að þessi aðgerð myndi ekki hafa nokkur áhrif á rekstur félagsins. Þessar bætur sem hafa verið dæmdar, það liggur ljóst fyrir að það eru litlar líkur á því að þeir sem urðu fyrir tjóni fái það bætt.”
Jón spyr af hverju framkvæmdavaldið stígur ekki inn í. „Af hverju fá menn að haga sér með þessum hætti, fá að brjóta lög og það eru engar afleiðingar af því? Þetta er svona eins og að keyra á hundrað og sextíu niður Ártúnsbrekkuna, eins og einn flugmaður Bláfugls orðaði það.”
Jón segir um einsdæmi að ræða hérlendis, en á sama tíma og mál Bláfugls var í gangi árið 2021 var flugfélagið Play stofnað. 20 starfsmönnum var sagt upp hjá félaginu nú fyrir mánaðamót.
Sjá einnig: Play segir upp 20 starfsmönnum
„Þar eru sem sagt fjárfestar lokkaðir að stofna þessi félög, meðal annars lífeyrissjóðir, á þeim forsendum að það standi til að fara í félagsleg undirboð, lækka laun um 19 – 37% og rýra öll kjör þeirra sem munu starfa hjá félaginu. Þetta átti að verða íslenskt flugfélag með tengihöfn hér á Íslandi og íslenskar áhafnir. Þetta átti alltaf svona að ganga svolítið í augun á okkur Íslendingum. Ég fagna samkeppninni. Við viljum samkeppni en það þarf þá að vera eftir sömu leikreglum. Við getum ekki farið í fótboltaleik og einn mætir í takkaskó meðan hinn mætir á fjórhjóli. Ekki bara gagnvart starfsmönnum, heldur líka samkeppnisaðilum. Svo er þetta alltaf presenterað, fyrirgefðu íslenskuna, fyrir neytandanum líka, að þetta sé rosalega gott fyrir þig. En við munum eftir WOW, 138 milljarða gjaldþrot. Hver borgaði það? Hvað er að fara að gerast núna hjá Play? Hver er að fara að borga það? Nú er verið að selja ferðir, sem að við vitum að verða ekki flognar. Ef þeir ætla að hætta til dæmis á Ameríku, þá er búið að selja núna í ferðir sem að við vitum að verða ekki flognar.”
Segir Jón Play hafa gefið út að félagið muni skila inn flugrekstrarleyfinu, ekki verði lengur tengihöfn hér á Íslandi og það verða færri vélar. Segir hann jafnframt áhafnirnar ekki verða íslenskar þar sem verið er að flytja félagið úr landi.
Aðspurður frekar um orð hans að Play stefni í gjaldþrot segir Jón:
„Ég held það sjái það allir að Play, félagið sem er á Íslandi. Play Malta verður kannski áfram til, en þetta félag Play sem skráð er í kauphöll, alla vega flugrekstrarleyfið verður skilað inn, þannig að þetta verður ekki flugrekandi. En hvað er þetta þá? Er þetta ferðaskrifstofa? Verður þetta farmiðasala? Já, líklega. En hver er þá ábyrgðin gagnvart neytandanum?”
Uppfært kl. 11.57:
Í yfirlýsingu sem Play sendi til DV rétt fyrir hádegi vísar félagið orðum Jóns Þórs alfarið á bug. Segir í yfirlýsingunni að Jón Þór sem er starfsmaður samkeppnisaðila félagsins, Icelandair, hafi beina hagsmuni af því að ráðast gegn Play. Í yfirlýsingunni segir meðal annars:
„Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), hvers félagsmenn eru langflestir starfsmenn Icelandair, hefur farið mikinn í opinberri umræðu um flugfélagið Play og látið hafa eftir sér ummæli sem ekki er hægt að túlka öðruvísi en rangfærslur og dylgjur í garð Play. Það er mikilvægt að almenningur og fjölmiðlar geri sér grein fyrir að maðurinn sem tjáir sig með þessum óábyrga og vafasama hætti er starfsmaður Icelandair, samkeppnisaðila Play, og hefur beina hagsmuni af því að ráðast gegn Play. Það styttist í kjaraviðræður milli FÍA og Icelandair og formaðurinn greinilega að setja sig í stellingar fyrir þau átök.“
Segir Jón að þessum orðum hans verði tekið illa, en þetta sé það sem hann lesi úr ársreikningi Play. Kollegar hans sem vinna hjá Play séu því miður á þeim stað að vinna hjá félagi sem er smám saman að draga saman seglin og búið að lýsa því yfir að það ætli að fara yfir á annan markað þar sem íslensk lög og reglur gildi ekki og þar er verið að nota gerviverktaka eins og Bláfugl gerði, sagði upp mönnum sem voru á kjarasamningi til þess að taka inn gerviverktaka.
Jón segist ekki vita tölu íslenskra flugmanna hjá Play, en þeim fari fækkandi.
„Forstjóri Icelandair talaði um þetta strax í upphafi að það væri ekki pláss fyrir tvo aðila hérna og Einar, forstjóri Play, hefur svona seinna tekið undir það og kannski notað það sem réttlætingu fyrir því að vera að fara með félagið af landi. Og við sjáum það alveg að fargjöldin eru ekki sjálfbær. Play hefur tapað hvað, um 30 þúsund milljónum á fjórum árum með tíu vélar í rekstri. Það segir okkur bara að fargjöldin eru ekki sjálfbær vegna þess að ekki snýst þetta um launin hjá starfsfólkinu.”
Aðspurður um ef spá hann rætist að starfsmenn Play muni ekki fá laun sín eða hvað það sé sem hann óttast helst segir Jón:
„Það sem að ég kannski óttast helst er í raun og veru bara þessi þróun að það eigi að reyna að festa í sessi gerviverktöku og félagsleg undirboð að einhverri austur-evrópskri fyrirmynd á íslenskum vinnumarkaði. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er engin sérstök samúð með fámennri stétt flugmanna. En ef við bara setjum þetta í samhengi við eitthvað annað sem að skiptir okkur máli, bara líf og heilsa, segjum bara hjúkrunarfræðingar. Ef ríkið myndi núna ráða inn 1000-1500 hjúkrunarfræðinga erlendis frá á helmingi lægri launum og án félagslegra réttinda í þeirri vegferð að spara. Auðvitað vil ég aðeins sjá ríkisreksturinn sko tekinn föstum höndum, en myndum við sætta okkur við það?”
Aðspurður segir Jón það alls ekki vonlaust að reka hér tvö íslensk flugfélög. „Og síðan er þetta eins og Arngrímur Jóhannsson sagði: „Tekjurnar þurfa að vera meiri en útgjöldin. Það er svolítið lykillinn í rekstri.” Grunnurinn að þessu er það að skipuleggja félagið með þeim hætti að það sé á sjálfbærum grunni. Það að fara beint út í þennan tengibanka í gegnum Ísland milli Evrópu og Ameríku er gríðarlega flókið, gríðarlega erfitt að gera. Og Icelandair, sem er búið að vera í þessu núna hallar í hundrað árin, að þetta er ekki byggt á einni nóttu. En það er bara látið vaða í þetta bara strax á fyrsta degi og þetta kannski er bara flóknara og erfiðara heldur en menn halda að sé.”
Jón ræðir einnig frekar framkvæmdavaldið og sinnuleysi þess í þessum málaflokki. Hann segir það umhugsunarvert að yfirlögfræðingur Samtaka atvinnulífsins sem situr í samninganefnd sem formaður samninganefndar Bláfugls þegar þetta allt saman á sér stað eigi á sama tíma sæti í stjórn Vinnumálastofnunar.
Hlusta má á viðtalið í heild sinni hér.