Starfsmaðurinn sem um ræðir, sem er rúmlega tvítugur, situr í gæsluvarðhaldi grunaður um brot gegn barni í leikskólanum. Hann var handtekinn þann 19. ágúst og úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir.
Morgunblaðið ræðir við Bylgju Hrönn í dag og þar segir hún að erfitt sé að segja til um hve mörg meint brot lögreglan hafi fengið tilkynningar um. Sömu ábendingar hafi jafnvel komið frá fleiri en einum aðila. Hún staðfestir þó að verið sé að skoða ábendingar um brot gegn fleiri en einu barni.
Bylgja er meðal annars spurð að því hvort ekki sé þörf á að ræða við öll börnin á leikskólanum þar sem umræddur maður starfaði á fleiri en einni deild. Bylgja segir að það þurfi að meta það og allt taki þetta sinn tíma. „Við erum að skoða ýmislegt í samráði við barnavernd,“ segir hún við Morgunblaðið.
Samkvæmt heimildum DV hafði maðurinn starfað á Múlaborg innan við tvö ár. Hann hafði ekki áður starfað á leikskóla en vann áður í stórmarkaði. Maðurinn er tæplega 22 ára gamall, á íslenskan föður og erlenda móður.