Í Rússlandi er staðan þannig að í austurhluta landsins er orðið erfitt fyrir íbúana að kaupa bensín því Úkraínumenn hafa gert svo harðar árásir á rússneska olíuiðnaðinn að hann getur ekki lengur framleitt nóg fyrir almenning.
The Moscow Times skýrir frá þessu og segir að frá því í byrjun ágúst hafi Rússar misst um 13% af framleiðslugetu sinni vegna árása Úkraínumanna sem hafa ráðist á að minnsta kosti sjö olíuhreinsistöðvar.
Úkraínumenn hafa einnig gert árásir á olíuleiðslur sem liggja frá Rússlandi til Ungverjalands og Slóvakíu og náð að stöðva streymið um þær um hríð. Nú segjast rússnesk stjórnvöld hugsanlega þurfa að skrúfa fyrir olíustreymið til ríkjanna tveggja, sem eru aðildarríki ESB en eru ólíkt hinum aðildarríkjunum hliðholl Rússum.