Eins og DV hefur fjallað um stendur Sveitarfélagið Langanesbyggð frammi fyrir því að hafa þurft að færa starfsemi Grunnskólans á Þórshöfn í nýtt húsnæði vegna myglu. Næsta vetur mun starfsemi skólans því fara fram í þremur öðrum húsum í þorpinu. Sveitarstjórn ákvað fyrr í sumar að beina sjónum að þeirri framtíðarlausn að byggja nýjan skóla en ljóst er að um töluvert fjárhagslegt högg er að ræða fyrir þetta litla sveitarfélag en þó þarf væntanlega aðeins að taka lán fyrir hluta kostnaðarins. Málið var enn til umræðu á fundi sveitarstjórnarinnar fyrr í dag en Björn S. Lárusson sveitarstjóri sagði í skýrslu sinni á fundinum að þrátt fyrir að margir hafi haft samband að fyrra bragði með ráðleggingar um viðgerðir á gamla skólanum sé hann enn sannfærður um að besta leiðin til framtíðar sé að byggja nýjan skóla. Hann segir ljóst eftir þessa reynslu sína að á Íslandi séu margir sem líti svo á að þeir sú mjög fróðir um myglu.
Mygla knýr á um nýjan grunnskóla – Gæti kostað hvern íbúa eina og hálfa milljón
Skýrsla Björns er birt í heild sinni með fundargerð fundarins. Skýrsluna flutti hann einnig í munnlegu formi á fundinum og hóf hana á þessum orðum:
„Nú stöndum við frammi fyrir einni stærstu áskorun sem við höfum fengið í mörg ár.“
Þegar kemur að þeirri leið sem ákveðið var að vinna frekar með, að byggja nýjan skóla, segir Björn að hún hafi ýmsa kosti.
Hann segir verulega óvissu fólgna í því að fara í viðgerðir á gamla skólanum en til þess þurfi að gera mun umfangsmeiri og kostnaðarsamari rannsóknir sem gætu falið í sér enn meiri endurbætur og umfangsmeira verk. Það sé þar af leiðandi engin trygging fyrir því að sveitarfélagið lendi ekki á upphafsreit að rannsóknum loknum. Þær skemmdir sem nú þegar hafi komið í ljós réttlæti varla að gera við skólann. Það sé svo margt við núverandi byggingu sem bókstaflega bjóði heim hættunni á myglu. Platan sé í sömu hæð og jarðvegur utan skólans, lítið sé vitað um ástand frárennslis- og neysluvatnslagna í grunni en þó sterkur grunur um leka sem rakamælingar sýni.
Björn segir enn fremur ljóst að gamli skólinn sé barn síns tíma. Þar vanti t.d. bókasafn, náttúrustofu, mötuneyti og fleira sem hægt sé að hafa í nýjum skóla. Enn fremur muni öll aðstaða nemenda og kennara batna til muna. Loks segir hann að verði þess leið farin að byggja nýjan skóla, sem yrði þá á öðrum stað en sá gamli, að þá yrði hægt að vinna mun hraðar en ef gera ætti við gamla skólann væri óljóst hvenær því myndi ljúka.
Björn segir að eftir að niðurstaðan varð að kanna þá leið nánar að byggja nýjan skóla hafi ýmsir aðilar sagt skoðun sína og margir haft samband:
„Hef ég heyrt mjög mismunandi skoðanir á því hvort sveitarstjórn hafi valið rétta leið. Annar hver Íslendingur er sérfræðingur í myglu og ófáir hafa hringt eða sent tölupósta með ábendingum um hvernig megi gera við og koma í veg fyrir frekari myglu.“
Björn segist hins vegar eftir samtöl sín við reynda byggingarmeistara vera sannfærður um að það sé besta leiðin að byggja nýjan skóla. Einn þeirra hafi sagt að ef reynt yrði að gera við gamla skólann yrði það skammvinn lausn einkum vegna óvissu um ástand plötu og sökkla og hversu útbreidd myglugró séu í lofti og veggjum. Minnir Björn á að fyrir nokkrum árum var farið í umfangsmiklar endurbætur á skólanum vegna raka og myglu sem kostuðu um 200 milljónir króna en það hafi augljóslega ekki dugað til.
Björn gerir síðan nánari grein fyrir í skýrslunni þeirri vinnu sem nú stendur yfir við að greina frekar hvernig best sé að standa að byggingu nýs skóla. Hann segir það ómetanlegt þegar verkefnið sé svona stórt að sveitarstjórn sé einhuga í málinu. Í október, þegar yfirstandandi greiningu ljúki verði boðað til íbúafundar til að fara yfir málin, kynna frekar stöðuna og leita eftir hugmyndum og tillögum. Björn ítrekar að endanleg ákvörðun um að byggja nýjan skóla hafi ekki verið tekin.
Þegar kemur að fjármögnun segir Björn að leitað sé að hagstæðustu kjörunum en miðað við hugsanlegan kostnað upp á 8 – 9 hundruð milljónir króna séu vonir um að hægt sé að fjármagna hátt í helming þeirrar upphæðar úr sveitasjóði á næstu tveimur árum þökk sé góðri stöðu. Það þýði hins vegar að sveitarfélagið geti lítið annað gert á næstu árum en nauðsynlegu viðhaldi verði að sinna.
Ljóst er að höggið er þungt fyrir þetta um 500 manna sveitarfélag. Björn sveitarstjóri segir að lokum í skýrslu sinni að við slíkar aðstæður sé þörf á samheldni og samstöðu sem hann efast ekki um að sé til staðar. Lykillinn að því að verkefnið gangi sé best sé að halda öllum upplýstum og vanda eins vel til verka og hægt sé.