Leon Panetta, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og fyrrverandi forstjóri CIA, hefur áhyggjur af vinasambandi Pútíns Rússlandsforseta og Trumps Bandaríkjaforseta. Hann telur Trump skaða trúverðugleika sinn með því að fylgja ekki eftir yfirlýsingum sínum af festu.
Þetta kemur fram í sjónvarpsviðtali Panetta við CNN. Hann segir að það sé ágætt að eiga í góðum samskiptum við þjóðarleiðtoga, jafnvel andstæðinga sína, en vandinn sé sá að Trump setji Pútín ekki mörk.
„Aðalatriðið, eins og vanalega er hvort þetta leiðir til raunverulegra framfara, að þú náir þeim markmiðum sem þú ert að sækjast eftir. Því þegar þú ert að eiga við Pútín þá snýst þetta ekki um að biðja fallega, það snýst ekki um að vera í góðu sambandi, þetta snýst um að þurfa að semja við einhvern sem er ekki traustsins verður og sem hefur nokkur markmið sem hann vill ná, og það skiptir miklu máli varðandi það að ná einhverjum árangri hvort þú gerir þessum aðila ljóst að hann muni ekki fá sínu framgengt. Ég held að mikið vanti upp á þetta í þessu sambandi.“
Panetta hefur áhyggjur af því að samningafundir milli Bandaríkjanna og Rússlands um Úkraínustríðið séu ekki nógu vel undirbúnir og það sé ekki nóg að halda fundi bara til að halda fundi.
„Það eru líkur á því að Pútín muni takast vel upp og sé bara að láta tímann vinna með sér.“
„Þegar maður er að eiga við einhvern eins og Pútín þá verður maður að vera trúverðugur. Ég held að forsetinn hafi skaðað trúverðugleika sinn. Hann sagðist vilja vopnahlé. Hann fékk það ekki. Hann sagðist ætla að grípa til refsiaðgerða. Það gerðist ekki. Hann sagði að ef hann fengi ekki því framgengt sem hann vildi þá yrði alvarlegar afleiðingar. Það hefur ekki gerst.“
Hann segir að þegar forsetinn standi ekki við hótanir sem þessar þá skaðist trúverðugleiki hans. Eina raunverulega vald forsetans liggi í orðum hans og því hvort hann stendur við þau.
Hann segir Trump vera að láta undan Pútín og Pútín skynji það. Það sem Trump þurfi að gera sé að gera Pútín ljóst að hann geti ekki unnið stríðið í Úkraínu og það geri hann með því að grípa til viðskiptaþvingana þegar ekki er látið að vilja hans og senda Úkraínumönnum vopn. Eins og staðan sé núna hafi Pútín engan hvata til að gefa eftir og fara að vilja Bandaríkjaforseta.
Sjá viðtal í spilaranum hér fyrir neðan: