fbpx
Miðvikudagur 13.ágúst 2025
EyjanFastir pennar

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Eyjan
Miðvikudaginn 13. ágúst 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Evrópuumræðan hefur verið mjög lífleg í sumar. Fjöldi greina hefur verið birtur að undanförnu um kosti og galla ESB aðildar Íslands bæði í Morgunblaðinu og á fésbókinni.

Nýjustu greinarnar frá þeim sem skrifa gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu hafa einkennst af svartsýni og neikvæðni. Höfundar greinanna telja að fyrirhuguð þjóðaratkvæðagreiðsla myndi kljúfa þjóðina og að hún hefði ekki nægar upplýsingar til að geta tekið afstöðu í þessu máli. Vantraust á íslensku þjóðinni er algjört hjá þessum pistlahöfundum.

Fyrrnefndir pistlahöfundar fullyrða að í komandi samningaviðræðum við ESB sé ekkert um að semja, við verðum einfaldlega að samþykkja þann samning sem ESB leggur á borðið án þess að fá neinar varanlegar sérlausnir. Þetta er alrangt. Skoðun það nánar.

„Þú getur átt þinn tjakk sjálfur“

Höfundar greinanna myndu allir falla á prófi í samningatækni.

Regla númer eitt í þeim fræðum er að gefast aldrei upp fyrir fram eins og þeir eru að leggja til að við gerum. Þeir telja ástæðulaust að spyrja og leggja fram kröfur og óskir hjá samningsaðilanum enda sé ekkert að fá úr samningaviðræðum við hann.

Skrif þeirra minna óneitanlega á söguna um manninn og tjakkinn. Þar segir frá manni sem var á ferð um landið en skyndilega springur dekk á bílnum hans.

Hann finnur engan tjakk í bílnum og gengur langa leið að næsta bæ til að fá tjakk lánaðan.

Á leiðinni fer hann að efast um að bóndinn vilji lána honum tjakk, hann hljóti að vera bæði illmenni og furðufugl.

Þegar bóndinn kemur til dyra segir bílstjórinn „Þú getur átt þinn helvítis tjakk sjálfur,“ snýr sér á hæl og rýkur burt í fússi.

Höfundar greinanna vilja ekki einu sinni spyrja í viðræðum við ESB hvort á þeim bæ sé til tjakkur!

Það eru víst til sérlausnir

„Margir samningamenn óttast að semja og forðast að biðja um það sem þeir vilja fá – og sætta sig því við það sem þeir geta fengið án teljandi samninga,“ sagði Aðalsteinn Leifsson einn helsti sérfræðingur okkar í samningafræðum í viðtali við Morgunblaðið.

Aðalsteinn telur mikilvægt að „velta vel fyrir sér hagsmunum þeirra sem þú semur við. Því betur sem þú þekkir hagsmuni og stöðu mótaðilans, þeim mun betur treystir hann þér og því er líklegra að þú getir náð árangri í viðræðunum.“

Í viðtalinu bætir svo Aðalsteinn við og segir: „Aðferð samningatækninnar er að greina hagsmuni og skilja þarfir með opnum hug og finna síðan lausnir sem uppfyllir flestar grunnþarfir allra aðila.“

Þetta er einmitt það sem þjóðir í samningaviðræðum við ESB hafa gert. Þær hafa allar náð hagstæðum samningum með varanlegum sérlausnum að undangengnum vönduðum og vel undirbúnum samningaviðræðum enda er yfirgnæfandi meirihluti íbúa í ESB löndum ánægðir með aðildina og evruna.

Öll núverandi aðildarríki ESB hafa fengið slíkar sérlausnir. Það er hins vegar ekki svo að ESB skilgreini grundvallarhagsmuni umsóknarríkis og bjóði sérlausnina að fyrra bragði. Umsóknarríkið verður sjálft að skilgreina sína grundvallarhagsmuni og setja fram samningskröfur byggðar á þeim.

Sérlausnin fyrir Finna og Svía vegna landbúnaðar á norðurhjara er þannig tilkomin. Sama má segja um sérlausn Möltu í sjávarútvegsmálum og sérlausn Dana varðandi eignarhald á húsum og landi í Danmörku svo nokkur dæmi séu nefnd.

Það er því blekking ein að ekkert sé um að semja þegar kemur að sérstökum grundvallarhagsmunum umsóknarríkja. Þeir sem halda slíku fram tala gegn betri vitund hafi þeir þá yfirleitt haft fyrir því að kynna sér aðildarferli að ESB á nokkurn hátt.

Fullveldið og fiskimiðin

Í öllum samningaviðræðum upplýsa báðir samningsaðilar um sína hagsmuni og þarfir. Síðan leggja þeir fram sínar hugmyndir að samningi. Samningaviðræðurnar snúast um að ná sameiginlegum markmiðum sem eru báðum til hagsbóta. Þetta kallast „win-win“ í samningafræðum.

Það sem einkennir greinarnar sem hafa birst að undanförnu er sú skoðun höfunda að með aðild Íslands að ESB munum við missa öll yfirráð yfir fiskveiðiauðlindum okkar.

Ekkert af þessu hefur við rök að styðjast. Skýrar reglur ESB í fiskveiðimálum segja að við munum halda fullum yfirráðum yfir okkar fiskimiðum enda erum við eina þjóðin sem hefur veiðireynslu á þessu svæði.

Pistlahöfundarnir reyna ítrekað að fullvissa þjóðina um að fullveldið sem við fengum árið 1918 tapist og að við verðum aftur ófullvalda þjóð sem mun heyra undir ESB og „bírókratana í Brussel“, eins og þeir orða það.

Ísland mun að sjálfsögðu hafa áhrif á Evrópuþinginu með sína 6 þingmenn. Einn pistlahöfundanna líkti þessum þingmönnum við „krækiber í helvíti“ í útvarpsviðtali.

Þingmenn okkar munu flestir verða hluti af meirihluta þingsins þar sem kristilegir demókratar, frjálslyndir flokkar og jafnaðarmenn hafa völdin. Þetta mun tryggja fullveldi okkar mun betur en núverandi aðild að EES.

Við munum taka þátt í öllum stofnunum ESB , fá aðild að ráðherraráðinu, fulltrúa í framkvæmdastjórn og öllum stofnunum ESB.

Við kunnum víst að semja

Sagan segir okkur að allir samningar sem fulltrúar Íslands hafa tekið þátt í hafa skilað þjóðinni árangri, framförum og velferð.

Þar má nefna samninga Íslands við Dani um heimastjórn 1904 og um sambandslögin 1918 sem voru okkur mjög hagstæðir. Samningur okkar við NATO árið 1949 þar sem við sömdum um aðild án þess að hafa her var okkur mjög hagstæður.

EFTA og EES samningarnir, samningar um landhelgina og nýlegir samningar um landgrunn Íslands og auðlindir á hafsbotni Atlantshafsins sýna að samningamenn okkar hafa staðið sig vel og beita góðri samningatækni.

Það er því full ástæða til bjartsýni þegar samningamenn okkar hefja viðræður við ESB.

En vonandi munu ofangreindir pistlahöfundar ekki vera í teyminu sem semur við ESB enda myndu þeir ganga til samninga með þá skoðun fyrir fram að samningarnir verði okkur óhagstæðir og að engir tjakkar finnist í Brussel.

Höfundur er stjórnarmaður í Evrópuhreyfingunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Er samtal svona hættulegt?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi

Sigmundur Ernir skrifar: Við erum enn á móti litasjónvarpi
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið

Thomas Möller skrifar: Ferðaþjónustan á betra skilið
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?

Svarthöfði skrifar: Úlfaldi úr mýflugu – margur heldur mig sig – allt í gosmóðu hjá stjórnarandstöðunni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Ísrael hefur sagt sig úr samfélagi siðaðra þjóða

Sigmundur Ernir skrifar: Ísrael hefur sagt sig úr samfélagi siðaðra þjóða
EyjanFastir pennar
12.07.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald

Sigmundur Ernir skrifar: Minnihlutinn á Alþingi hefur ekki neitunarvald
EyjanFastir pennar
12.07.2025

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér

Óttar Guðmundsson skrifar: Stalín er ekki lengur hér
EyjanFastir pennar
06.07.2025

Svarthöfði skrifar: Dauðir skipaðir í áfengisvarnarnefnd – þingmaður Miðflokksins spaugari aftur í ættir

Svarthöfði skrifar: Dauðir skipaðir í áfengisvarnarnefnd – þingmaður Miðflokksins spaugari aftur í ættir
EyjanFastir pennar
05.07.2025

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir

Sigmundur Ernir skrifar: Orrustan um Ísland stendur yfir