Sjaldan hefur Svarthöfði skemmt sér betur en yfir lestri seinni leiðara Morgunblaðsins í gær. Leiðarinn bar yfirskriftina „Vetur kemur“ sem gefur til kynna að leiðarahöfundur sé með hugann í söguheimi Game of Thrones. Mikil dramatík.
Svarthöfði hefur gaman mikið af hvers kyns öfugmælavísum. Þær geta oft verið hnyttnar og hitt í mark. Það getur nefnilega virkað betur að snúa öllu á hvolf en að segja hlutina beint út. Aldrei er þó eins gaman að öfugmælavísum en einmitt þegar þær hitta fyrir vísnahöfundinn sjálfan.
Og víst er að leiðarahöfundur hittir sjálfan sig og sína menn fyrir með skrifum sínum í gær. Hann fjallar um að sumarið sé senn á enda og ríkisstjórnin aftur farin að funda. „Um nóg er að fjalla, svo sem hvernig hún nái betur vopnum sínum á Alþingi eftir niðurlæginguna í sumar; endurflytja þarf fjölda mála og áform uppi um ný mál.“
Svarthöfði viðurkennir að hann hló upphátt þegar hann las þessa setningu. Nokkuð er hann viss um að utan ritstjórnar Morgunblaðsins og flokksskrifstofunnar í Valhöll lítur enginn svo á að ríkisstjórnin hafi verið niðurlægð í sumar. Stjórnarandstaðan niðurlægði hins vegar sjálfa sig og lýðræðið með því að setja Íslandsmet í málþófi í veiðigjaldamálinu og halda Alþingi í gíslingu. Með þessu tókst stjórnarandstöðunni, við litlar þakkir þorra almennings, að tefja þingstörf fram á mitt sumar og koma í veg fyrir að fjöldi þingmála fengi þinglega meðferð.
Á leiðarahöfundur kannski við kjánaleg upphlaup stjórnarandstöðunnar vegna heimsóknar Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, hingað til lands í júlí? Þau einu sem niðurlægðu sig þar voru þeir stjórnarandstæðingar sem höfðu sig mest í frammi. Sama gildir um andstoppið sem stjórnarandstaðan lenti í þegar fregnir bárust af því að ESB muni mögulega setja verndartoll á kísilmálm frá Íslandi.
Svarthöfði veit, eins og ýmsir reynslumiklir stjórnarandstöðuþingmenn, að stjórnvöld gæta oft hagsmuna sinna ríkja jafnvel þótt ekki séu daglegar fréttir af þeirri hagsmunagæslu. Jafnan gefst nú betur að ræða beint við viðsemjendur en að senda þeim skilaboð í gegnum fjölmiðla þó að núverandi forseti Bandaríkjanna, sem virðist í miklu uppáhaldi hjá ritstjóra Morgunblaðsins, velji ávallt fjölmiðla eða samfélagsmiðla fremur en að ræða beint við fólk. Framferði Trumps er ekki til eftirbreytni þótt ritstjórinn og helstu þingmenn stjórnarandstöðunnar virðist telja svo vera.
Þá hneykslast leiðarahöfundurinn á því að ríkisstjórnin hyggst leggja upp heildstæða atvinnustefnu fyrir Ísland. Horfir hann væntanlega með eftirsjá til sjö ára ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins með VG og Framsókn þegar alls engin atvinnustefna ríkti önnur en sú að þenja ríkisbáknið út svo sem mestur kostur er. Leiðarahöfundurinn vill að fyrirtækin sjálf stjórni umhverfinu í atvinnulífinu. Um það snerist einmitt málþófið um veiðigjöldin. Stjórnarandstaðan var til í að fórna öllu til að útgerðin hefði sjálfdæmi um það umhverfi sem hún starfar í og hvaða gjöld hún þarf að greiða fyrir afnot af sameiginlegri auðlind.
Til í að fórna öllu. Svarthöfði er raunar á þeirri skoðun að stjórnarandstaðan hafi fórnað öllu fyrir varðstöðuna um sérhagsmuni útgerðarinnar og málþófinu. Hún fórnaði sínu eigin fylgi. Hún fórnaði virðingu Alþingis. Hún fórnaði hagsmunum þjóðarinnar með því að koma í veg fyrir þinglega meðferð ýmissa þjóðþrifamála. Gíslatakan á Alþingi hafði afleiðingar.
Svarthöfði bíður spenntur eftir því að þing komi saman í september. Stjórnarandstaðan og Morgunblaðið virðast ekkert hafa lært af þeirri niðurlægingu sem þau kölluðu yfir sig með yfirgengilegri sérhagsmunavörslu fyrir auðugasta fólk landsins og Íslandsmeti í málþófi langt fram eftir sumri. Það sýnir móðursýkin sem greip þetta fólk við heimsókn Ursulu von der Leyen áþreifanlega. Ekki er við öðru að búast en að niðurlægingin haldi áfram á nýju þingi. Þá ætlar Svarthöfði að fá sér popp og kók og skemmta sér vel. Dramatíkin verður ekki síðri en í Game of Thrones. Já, vetur kemur.