Margir telja að fundurinn verði til þess að Volodymyr Zelenskyy, forseti Úkraínu, muni líta út sem taparinn því honum hefur ekki verið boðið á fundinn sem mun snúast um innrásina í landið hans.
En margir rússneskir herbloggarar eru mjög áhyggjufullir að sögn Ivan Philippov, sem er landflótta rússneskur blaðamaður og rithöfundur. Þetta kemur fram í greiningu sem hann birti á vefsíðu Vot Tak sem er rússneskur fjölmiðill í útlegð.
Philippov flúði frá Rússlandi fyrir þremur árum og hefur síðan birt greiningar á skrifum rússneskra herbloggara, sem styðja einræðisstjórnina í Kreml, á Telegramrásinni „Ekkert að frétta frá Vesturvígstöðvunum“. Hann er einnig að skrifa bók um rússneska herbloggara.
Í greiningu sinni segir Phillippov að félagsskapur rússneskra herbloggara, sem styðja stríðsreksturinn í Rússlandi, (svokallaður Z-félagsskapur) sjái eitt grundvallarvandamál varðandi samningaviðræður Trump og Pútíns. Það sé óljóst hvað þeir geta samið um.
Það fer sérstaklega illa í þá að fréttir hafa borist af því að Rússland verði að „láta“ úkraínsku héruðin Kherson og Zaporizjzja af hendi.
„Skipti á landsvæðum“ er auðvitað útilokað. Þetta eru einhverjir undarlegir draumórar hjá forseta Bandaríkjanna sem finnst, af einhverjum ástæðum, að hann sé keisari heimsins. En af hverju halda leiðtogar okkar áfram að taka þátt í þessum leik?“ skrifaði rússneski herbloggarinn Verum Regnum.
Annar herbloggari, sem Philippov segir að sé fyrrum hermaður í Úkraínu, segir að enginn samningur við Trump „geti lofað góðu“.
Rússnesku herbloggararnir telja ekki nóg að Bandaríkin heiti því að Rússar fái Krím, Donetsk og Luhansk. Philippov sagði í samtali við TV2 að þeir telji að ef Pútín láti önnur hertekin svæði í Úkraínu af hendi, þá jafngildi það landráðum.