fbpx
Sunnudagur 03.ágúst 2025
Fréttir

Súlunesmálið: Blóðslettur víða um húsið og lögregla óttast ofríki Margrétar gegn móður sinni

Ritstjórn DV
Föstudaginn 1. ágúst 2025 15:39

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Halla Hansdóttir Löf er ákærð fyrir að hafa orðið föður sínum að bana og fyrir að reyna að bana móður sinni. Nú hefur gæsluvarðhaldsúrskurður Landsréttar verið birtur sem varpar frekara ljósi á málsatvik.

Blóðslettur á veggjum

Lögreglu barst tilkynning um meðvitundarlausan aðila að heimili sínu að Súlunesi þann 11. apríl. Þegar lögregla kom á vettvang lá faðir Margrétar, Hans Roland Löf, meðvitundarlaus í anddyrinu og var kona hans að reyna að aðstoða hann. Margrét stóð innan við forstofuna. Hans reyndist vera í hjartastoppi og hófust endurlífgunartilraunir á vettvangi. Hann var úrskurðaður látinn síðar sama dag. Bæði Hans og kona hans voru með mikla áverka og mátti sjá blóðslettur víðsvegar um húsið, meðal annars á veggjum. Að mati lögreglu hafði mikið gengið á.

Samkvæmt krufningu voru miklir áverkar á Hans Roland. Þeir voru útbreiddir, grunnir og djúpir, einkum á höfði, hálsi og brjóstkassa. Útlit marbletta, húðblæðinga, sára á höfði og beinbrota benti sterklega til þess að áverkar hafi komið til fyrir sljóan kraft, á meðan útlit skrámanna og annarra minni sára bendir til að þær hafi orðið til við sljóan skrapandi kraft.

Heildarmyndin bendi til að annar einstaklingur hafi veitt honum flesta áverkana, á mismunandi tímum og undir ólíkum hornum. Taldi læknir að marblettir og sumar skrámur hafi orðið til í kjölfar högga, sparka, íslaga gegn hörðum yfirborðum eða flötum, og mögulega gripa eða taka með útlim eða útlimum. Dánarorsök var ekki kortlögð þegar úrskurður féll en ekkert benti til að um bráðan sjúkdóm hafi verið að ræða og áverkanir þess eðlis að þeir hafi geta valdið dauða. Því megi, að mati þess sem framkvæmdi krufninguna, óhikað íhuga þann möguleika að Hans Roland Löf hafi verið ráðinn bani.

Margrét var með marbletti á handleggjum og klórför á bringu þegar hún var handtekin. Hún neitar sök og segist hafa verið í svefnherbergi sínu þegar hún heyrði dynk. Síðan hafi hún komið fram að séð föður sinn liggja á gólfinu. Líklega hefði hann dottið. Hún kannaðist ekki við áverka á móður sinni en taldi mögulegt að þeir hefðu komið þegar hún datt nýlega eða þegar hún væri almennt að reka sig í.

Óttast að Margrét hafi áhrif á framburð móður sinnar

Skýrslur hafa verið teknar af vitnum sem lýstu ofbeldishegðun Margrétar gegn foreldrum sínum. Gögn frá fagaðilum bendi til þess að um langvarandi heimilisofbeldi hafi verið að ræða yfir langt tímabil. Margrét greindi sjálf frá því í skýrslutöku að ofbeldisástand hafi verið á heimilinu síðan hún var barn og gekkst hún við því að komið hefði til handalögmála í aðdraganda andlátsins.

Til að rökstyðja kröfuna um gæsluvarðhald benti lögreglan á þá staðreynd að móðir Margrétar er lykilvitni í málinu. Framburður hennar hafi þó verið með ólíkindablæ og ekki í samræmi við fyrirliggjandi gögn. Vildi lögregla því freista þess að ræða við móðurina að nýju og bera undir hana gögn málsins.

Lögregla taldi á sama tíma líklegt að ef Margrét fengi að ganga laus gæti hún hæglega torveldað rannsóknina, svo sem með því að hafa áhrif á framburð móður sinnar. Móðirin hafi búið við viðvarandi ógnarástand af hálfu dóttur sinnar þar sem  lífi hennar, heilsu og velferð hafði verið ógnað í það minnsta frá 22. febrúar til 11. apríl. Gögn beri með sér að Margrét hafi haft stjórn á lífi móður sinnar og því augljós og veruleg hætta á að Margrét hafi áhrif á framburð lykilvitnisins.

Eins þótti lögreglu alvarlegt og óforsvaranlegt að Margrét gangi laus eins og sakir stóðu. Það myndi misbjóða réttlætiskennd almennings og væri til þess fallið að valda hneykslun og óróa í samfélaginu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sveitarstjóri sakar Heimildina um aðför að börnum – Gerir orð íbúa að orðum miðilsins

Sveitarstjóri sakar Heimildina um aðför að börnum – Gerir orð íbúa að orðum miðilsins
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Karlmaður og kona sakfelld: Fengu 6,3 milljónir inn á reikning fyrir mistök og skiluðu ekki fénu

Karlmaður og kona sakfelld: Fengu 6,3 milljónir inn á reikning fyrir mistök og skiluðu ekki fénu