Andstæðingar ESB-aðildar Íslands beita hiklaust staðlausum hræðsluáróðri í málflutningi sínum gegn aðild að sambandinu. Þeir vilja horfa til Bandaríkjanna um uppbyggingu samfélagsins en það er aðeins í þágu fjármagnsins, ekki almennings og launafólks. Í hverra þágu berjast þeir sem vilja ekki leyfa þjóðinni að ákveða hvort hún verður innan ESB eða utan? Vart í þágu íslensks almennings.
Andstæðingar aðildar Íslands að ESB fara mikinn þessa dagana og eru bersýnilega að fara á taugum, slíkt er óðagotið. Upphlaupin út af heimsókn Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB og fyrirhuguðum tollum ESB á íslenskt járnblendi voru sannast sagna furðuleg. Allt bendir til þess að menn hafi farið fram úr sér í geðshræringunni og stundað hefðbundinn hræðsluáróður sem ekki er byggður á staðreyndum t.d. varðandi það að aðildarumsókn Íslands að ESB er í fullu gildi þó að viðræður hafi legið niðri um árabil.
Vitaskuld er það mikið fagnaðarefni að æðsti embættismaður ESB komi hingað í heimsókn til að ræða við íslenska ráðamenn. Það er kjánalegt að bera á borð samsæriskenningar sem maður átti satt að segja ekki von á frá fólki sem ekki gengur um með álhatta dags daglega en samsæriskenningaiðnaður stjórnarandstöðunnar hefur sannarlega fengið að blómstra að undanförnu.
Fyrirhugaðir tollar ESB á íslenskt járnblendi eru mikið alvörumál og þótt þeir styðjist við þröngt undanþáguákvæði EES-samningsins er nokkuð ljóst að þeir fara gegn inntaki hans. Engin efnisleg rök virðast fyrir því að fella Ísland og Noreg undir þessa tolla. Ekki þarf að efa að utanríkisráðherra og forsætisráðherra halda hagsmunum Íslands hátt á lofti í samskiptum við forystumenn ESB í þessum efnum. Ætla má að Íslandsheimsókn von der Leyen hafi gefið kærkomið tækifæri til að koma sjónarmiðum okkar Íslendinga vel á framfæri.
Af þessum fyrirætlunum ESB sést hins vegar glögglega að EES-aðild er svo sannarlega ekki jafngildi ESB-aðildar jafnvel þótt drjúgur hluti regluverks ESB sé lögfestur í gegnum EES. Það eru engin ný sannindi að á viðsjárverðum tímum hugsar hver um sig. ESB hugsar fyrst og fremst um aðildarríkin eins og vera ber.
Andstæðingar ESB-aðildar hafa reynt að mála sambandið upp sem misheppnað fyrirbæri, einhverjir hafa kallað það brennandi hús sem óðs manns æði væri að fara inn í. Þessi málflutningur er frasakenndur hræðsluáróður. Staðreyndin er sú að heimurinn hefur sennilega sjaldan verið hættulegri og viðsjárverðari en einmitt um þessar mundir. Við erum úti og það er hér úti sem eldstormur geisar. Það er hérna sem hættan er, og þá ekki síst fyrir smáfuglana.
Andstæðingar aðildar Íslands að ESB hafa notað sem rök fyrir sínum málflutningi að Evrópa sé að dragast aftur úr Bandaríkjunum á mörgum sviðum. Flestum segja einhverjir þeirra. Verðmætasköpun sé meiri í Bandaríkjunum en í ESB. Af þessu málflutningi má draga þá ályktun að sú skoðun sé ríkjandi meðal andstæðinga ESB-aðildar að Íslandi væri hollara að stafna að sömu samfélagsgerð og hagkerfi og Bandaríkin fremur en að horfa til ESB og aðildarþjóða þess.
Og vissulega er það rétt að djúp gjá er milli samfélagsmynstursins í ESB og Bandaríkjunum. Lítum á nokkur atriði:
Þetta eru einungis örfá dæmi um þann mun sem er á bandarískum og evrópskum vinnumarkaði. Vitanlega þýðir þessi munur að starfsmannakostnaður er hærri í Evrópu en í Bandaríkjunum en það er meðvituð ákvörðun stjórnmálamanna og kjósenda í Evrópu að svona skuli þetta vera vegna þess að þarna séu það lífsgæði almennings sem eru undir.
Gagnrýna má ESB fyrir að ganga of langt að óþörfu með regluverki um starfsumhverfi fyrirtækja, jafnvel svo að það skaði samkeppnishæfni þeirra gagnvart umheiminum. Þetta hafa forsvarsmenn ESB sjálfir viðurkennt og hafin er hreyfing í þá átt að einfalda regluverk innan ESB í átt til þess sem tíðkast m.a. í Bandaríkjunum. Þetta er talið geta stutt við samkeppnishæfni t.d. á sviði hátækni. Enginn vilji er hins vegar til þess að rífa niður áunnin réttindi launafólks og setja það niður á sama plan og launafólk í Bandaríkjunum. Þetta er spurning um það samfélag sem við viljum búa í.
Í grunninn má segja að einn stór munur á Bandaríkjunum og ESB sé sá að í Bandaríkjunum miðist allt við að tryggja hagsmuni fyrirtækjanna og eigenda þeirra, m.ö.o. fjármagnsins. Í ESB er reynt að skapa hagfellt markaðshagkerfi fyrir fyrirtækin en ávallt með það í huga að tryggja hag og réttindi almennings, ekki einungis fjármagnsins.
Við Íslendingar verðum svo auðvitað að gera það upp við okkur í hvernig samfélagi við viljum búa. Hingað til höfum við farið evrópsku leiðina en ekki þá bandarísku. Ætli það yrði mikil sátt um að rífa áunnin réttindi af launafólki á íslenskum vinnumarkaði til að hámarka verðmætasköpun í anda Bandaríkjanna? Myndi það kannski kljúfa þjóðina í herðar niður?
Í þeim eldstormi sem nú geisar á hinu alþjóðlega sviði verðum við Íslendingar að gera upp við okkur hvar viljum við vera. Viljum við vera undir verndarvæng stórveldisins í vestri sem virðist hraðbyri stefna í þá átt að segja sig úr lögum við önnur vestræn ríki? Hér er ekki bara verið að vísa til Trumps forseta. Hann er einungis birtingarmynd þeirrar þróunar og stefnubreytingar sem er að eiga sér stað í Bandaríkjunum. Trump mun hverfa af sviðinu en ekki það sem hann stendur fyrir.
Eða viljum við ganga í bandalag með nágrannaþjóðum okkar í Evrópu sem deila með okkur gildum og sýn á það samfélag sem við viljum?
Þetta eru stóru spurningarnar. En það er fleira sem við verðum að horfa á. Undanfarna daga hafa stóru viðskiptabankarnir verið að birta hálfsársuppgjör sín og niðurstaðan er methagnaður, jafnvel hátt í tvöföldun hagnaðar frá sama tímabili í fyrra. Og þetta gerist á sama tíma og almenningur herðir sultarólina og ungt fólk kemst ekki inn á húsnæðismarkaðinn.
Ein ástæða fyrir ofurhagnaði bankanna er að þeir starfa hér í vernduðu umhverfi. Þeir eru verndaðir fyrir erlendri samkeppni vegna þess að við notum ekki alvöru gjaldmiðil á Íslandi. Við notum krónuna sem hvergi er hægt að nota nema hér á landi. Enginn banki utan Íslands tekur við íslensku krónunni. Það er gott fyrir bankana að Ísland sé utan ESB og krónan sé hér gjaldmiðill en ekki evran. Ef evran væri hér í notkun myndu erlendir bankar koma inn á markaðinn. Ísland er hálaunasvæði og ákjósanlegur markaður fyrir fjármálafyrirtæki ef hægt er að losna við krónuáhættuna. Sama gildir raunar um tryggingastarfsemi þó að það verði að viðurkennast að auk krónunnar eru það ýmsar séríslenskar reglur, m.a. um örorku, sem halda uppi gríðarlega háum tryggingum hér á landi.
En það má ekki fara inn í ESB, segja andstæðingarnir, vegna þess að þá munum við engu ráða um sjávarútveginn okkar eða landbúnaðinn. Það eru engar varanlegar undanþágur!
Nei, það eru engar varanlegar undanþágur, rétt er það. Það eru hins vegar varanlega sérlausnir svo sem reglurnar um heimskauptalandbúnað fyrir Svíþjóð og Finnland sýna glögglega. Ísland myndi njóta góðs af þeim reglum og án efa sett fram og fengið samþykktar kröfur um sérlausn sem snýr að hagsmunum okkar sé talið að fyrirliggjandi reglur dugi ekki. Sama má segja um sjávarútvegslausnina sem Malta fékk þegar hún gekk inn í ESB.
Staðreyndin er sú að hvert einasta ríki sem gengið hefur í ESB hefur fengið sérlausn um sína grundvallarhagsmuni, hvert einasta ríki. En ESB kemur ekki og býður þessar sérlausnir að fyrra bragði. Umsóknarríkið verður sjálft að skilgreina sína grundvallarhagsmuni og setja fram kröfur um varanlega sérlausn til að tryggja þá hagsmuni. Þetta er það sem andstæðingar ESB aðildar hér á landi vilja ekki tala um. Enda hentar sú umræða ekki þeirra málflutningi.
Velta má fyrir sér hverra hagsmunum andstæðingar ESB-aðildar berjast fyrir. Nokkuð ljóst er að það eru ekki hagsmunir íslensks almennings sem standa þeim næst. Kom það enda í ljós í málþófinu um veiðigjöldin að margir eru til í að ganga mjög langt, fórna virðingu sinni og orðspori, til að berjast fyrir þrönga sérhagsmuni gegn hagsmunum fjöldans.