Einhverjir stuðningsmenn Liverpool hafa látið óánægju sína í ljós með ummæli Luis Diaz eftir að hann yfirgaf félagið fyrir Bayern Munchen.
Diaz fór til Bayern á dögunum eftir nokkur góð ár með Liverpool, þar sem hann átti til að mynda stóran þátt í að hjálpa liðinu að vinna Englandsmeistaratitilinn í vor.
„Mig langaði að fara til Bayern því þetta er félag sem hentar mínum markmiðum vel. Ég hef miklar væntingar og langaði því í stórt félag með metnað. Mig langar að vinna allt hér,“ sagði Diaz um skiptin.
Þetta fór öfugt ofan í einhverja netverja sem hafa látið Kólumbíumanninn heyra það.
„Er Liverpool ekki stórt félag?“ skrifaði einn. „Er hann að segja að Liverpool sé ekki metnaðarfullt félag?“ skrifaði annar og margir tóku í svipaðan streng.