Arnar Þór Ólafsson, framkvæmdastjóri Fraktlausna, vandar lögreglunni ekki kveðjurnar eftir símtal frá henni í dag þar sem honum var lesinn pistillinn og hann sakaður um hótanir í garð meints díselolíuþjófs.
Forsaga málsins er sú að Fraktlausnir birtu um helgina myndband sem sýnir fjóra menn stela miklu magni af díselolíu á athafnasvæði Fraktlausna við Héðinsgötu í Reykjavík. Mennirnir dældu olíunni upp úr tanki eins af flutningabílum fyrirtækisins. Töluvert hefur verið fjallað um málið í dag en DV greindi fyrst frá því á laugardaginn.
Fraklausnir báru kennsl á bíl þjófanna sem sést í myndbandi þeirra og þar með skráðan eiganda hans. Hafði Arnar Þór samband við hann, samkvæmt því sem hann greinir frá í Facebook-færslu í kvöld. Hann segir manninn hafa farið til lögreglu og logið upp á sig hótunum. Er maðurinn búinn að kæra Arnar fyrir hótanir. Segir Arnar að málið hafi þróast í skrítna átt:
„Ég fékk símtal frá lögreglunni í morgun vegna þess að ég hafði framið lögbrot og hótað eiganda bílsins. Málið er það að ég hringdi í hann og bauð honum að skila því sem hann stal af okkur ella myndi eg hafa upp á honum og ég væri ekki viss um að ég yrði ábyrgur gjörða minna þegar ég næði í skottið á honum. Hann sagði í fyrsta símtali að hann myndi skila þessu strax, sem og hann gerði ekki, næsta símtal sagði hann að hann væri búinn að selja bílinn og þetta hefði ekki verið hann og hann vissi því ekkert um þetta. Hann fór niðrá lögreglustöð og laug að lögreglunni og kærði mig fyrir hótanir. Lögreglan var fljót að hringja í mig og lesa mér pistilinn.“
Ég var fljótur að benda þeim á að þessi bíll hefði verðið notaður ítrekað við aðra glæpi, að hann hefði viðurkennt það fyrir mér að hann væri með olíuna frá okkur og myndi skila henni. Meira að segja bauðst hann til að greiða fyrir olíuna sem þeir tóku. En lögreglan tók ekki þessi rök frá mér og var í raun alveg sama hvað ég hefði um málið að segja, ég hafði framið lögbrot og það fengi sko að fara sína leið.
Það virðist sem það eina sem skiptir máli eru réttindi glæpamanna.
Þetta er algerlega sturlað…“