Vilmundur Möller Sigurðsson rafeindavirkjameistari glímdi fyrir nokkrum árum við mikla og alvarlega heilsukvilla sem læknum tókst ekki að greina hvaðan væru tilkomnir. Hann þjáðist af krónískum verkjum um allan líkamann, fékk alls kyns útbrot, hárlos, bólgur og gigtareinkenni. Þá var hann kominn með kæfisvefn, ofsasvita og stöðuga síþreytu.
„Þetta er bara orðið sannað mál. Að plastefni sem við erum að innbyrða eða plastefni sem eru mjög nálægt okkur, plastefni í leikföngum, hafa núna verið viðurkennd sem hættuleg ef þau eru í nógu miklum mæli, ef þau eru nógu mjúk, ef það er nógu mikil efnaútgufun á hættulegum efnum. Þarna eru rokgjörn lífræn efnasambönd sem eru í þessu plasti og þarna er það bara orðið sannað með ýmsum rannsóknum og nú síðast bara með svefnrannsókn í Kanada sem CNN birti núna í fréttum. Að mjúkplast eða svampefni í barnadýnu þar er bara að gefa frá sér þessi efni. Þessar barnadýnur eru þá taldar hættulegar eða ekki æskilegt að börn sofi á þeim. Sama með þessi plastleikföng sem eru mjúk, það er ekki æskilegt að börn séu að leika með þau,“
segir Vilmundur í Spjallinu hjá Frosta Logasyni.
„Hér á Íslandi, þú tekur þetta sama barn og þú tókst leikfangið af og leggur það til hvílu á stærsta plastklumpinum sem það kemst í kynni við, sem er dýnan. Dýnan er svampdýna, svampefni. Dýnur eru bara mýksta tegund af plasti, þar af leiðandi með mesta útgufun í lengstan tíma af því að barnið liggur þarna tíu plús tíma, fullorðnir átta plús. Þarna erum við með vöru sem hefur mest áhrif á þig af öllum vörum í heiminum.“
Segir Vilmundur margar dýnur sem seldar eru hérlendis falla í þennan flokk.
„Það er meira að segja verið að selja sumar svampefnadýnur sem heilsudýnur, hvaðan sem sú fullyrðing kemur, af því það er ekkert sem sannar að þú fáir bætta heilsu. En það virðist vera samkvæmt öllu sem ég er búinn að sjá og fleiri en ég, og nú erum við komin með lækna inn í málið líka, að þetta séu verstu dýnurnar. Þær séu að valda heilsutjóni og það eru kannski 90% af öllum dýnum sem eru seldar á Íslandi og eru með einhvers konar svampefni, svona alla vega í efsta lagi og jafnvel alveg alla leið niður.“