fbpx
Föstudagur 11.júlí 2025
Fréttir

Bjössi í World Class gerir athugasemdir við skipulag í Laugardal og segist eiga bílastæðin – Krefst eignarnámsbóta verði ekki fallið frá framkvæmdum

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 10. júlí 2025 15:00

Björn Leifsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Reykjavíkurborg hefur birt í skipulagsgátt tillögu að breytingum á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040 varðandi skilgreiningu nýs svæðis fyrir samfélagsþjónustu í Laugardal, við Reykjaveg. 

Í tillögunni kemur fram að í gildandi aðalskipulagi sé umrætt svæði skilgreint sem íþróttasvæði og hefur verið nýtt fyrir bílastæði sem þjóna þjóðarleikvanginum í Laugardal. Tilgangur breytingarinnar er að skapa skilyrði fyrir skjóta uppbyggingu skólastofnana á umræddu svæði, til að mæta brýnni þörf sem nú er til staðar í nálægum skólahverfum. Þar sem um grunnskóla er að ræða er það metið svo að breyta þurfi aðalskipulagi. 

Uppbyggingin sem um ræðir er svokallað skólaþorp sem rísa á við Reykjaveg, en brýn þörf er á húsnæði vegna viðhalds á þeim grunnskólum sem í hverfinu eru. Skólaþorpið mun hýsa nemendur úr Laugarnesskóla, Laugalækjarskóla og Langholtsskóla á meðan framkvæmdir standa yfir í húsnæði skólanna. Skólaþorpið mun samanstanda af fimm skólastofum sem fluttar verða frá öðrum skóla í Reykjavík auk þess sem samið hefur verið um kaup á 11 stofum til viðbótar. Gert er ráð fyrir að fyrstu tíu stofurnar verði afhentar á fyrri önn næsta skólaárs. Stefnt er að því að fyrstu fjórar stofurnar verði afhentar til úttekta í september/október 2025 og næstu sex um mánuði seinna.

Breytingin var auglýst í fjölmiðlum og tilkynnt í skipulagsgátt. Alls bárust 11 athugasemdir við breytinguna frá opinberum umsagnar- og hagaðilum. 

Segist eiga samningsbundinn eignarrétt á bifreiðastæðunum

Einn þeirra er Björn Leifsson, eigandi World Class. Hæstaréttarlögmaðurinn Geir Gestsson andmælir fyrir hönd Lauga ehf., fyrirtækis Björns, breyttri notkun á bifreiðastæðum á þeim forsendum að Björn eigi samningsbundinn eignarrétt á bifreiðastæðunum. 

Í mótmælum Lauga ehf. (sjá bls. 17-29) er það rakið að 22. júlí árið 1999 hafi Björn sjálfur og þáverandi borgarstjóri, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrir hönd Reykjavíkurborgar, undirritað viljayfirlýsingu um stæðin. Með henni hafi því verið heitið að stæðin yrðu framvegis nýtt fyrir gesti innisundlaugar og heilsuræktarstöð World Class.  Samningar þar um voru undirritaðir 24. apríl árið 2002 og 26. nóvember árið 2002. Í báðum samningnum undirritar Ingibjörg Sólrún undir fyrir hönd borgarinnar, og Björn undirritar fyrri samninginn fyrir hönd Lauga ehf. kt. 631098-2079, og Björn og Sigfús Jónsson undirrita seinni samninginn fyrir hönd Laugahús ehf. kt. 470802-2270.

„Í 4. grein samninganna var umbjóðanda okkar [Laugum ehf./Birni] veitt ótímabundin og endurgjaldslaus afnot af ómerktum almennum bifreiðastæðum við Laugardalslaug og Laugardalsvöll, fyrir gesti stöðvarinnar,“ segir í bréfi lögmannsins.

Í samningunum stendur í 4. grein þeirra:  „Auk þess fær Laugar ehf. [samningur dags, í apríl]Laugahús ehf. [samningur dagsettur í nóvember] endurgjaldslaus afnot af ómerktum almennum bílastæðum við Laugardalslaug og Laugardalsvöll fyrir gesti heilsuræktarmiðstöðvarinnar.“

Rekstur World Class hófst í Laugardal árið 2004 og hefur starfað þar óslitið síðan, allan tímann með aðgang að umræddum bifreiðastæðum.

Segir í bréfinu að þannig hafi Laugar ehf. Einnig öðlast óbeinan eignarrétt (afnotarétt) til stæðanna á grundvelli afnotahefðar skv. 7. grein hefðarlaga.

Segir um að ræða skerðingu á eignarréttindum sem valdi honum fjártjóni

Að mati lögfræðings Björns mun fyrirhuguð breyting á aðalskipulagi fela í sér verulega skerðingu á eignaréttindum Björns og valda honum fjártjóni. Með fækkun bílastæða muni gestum í World Class og tekjur dragast saman.

Í bréfinu eru einnig gerðar athugasemdir við innkeyrslu á bifreiðastæðið en samkvæmt tillögunni stendur til að loka innkeyrslu að sunnanverðu. Muni lokunin rýra upplifun gesta sem sækja svæðið og viðburði og jafnan auka hættu sé horft til aðgengis viðbragðsaðila að og frá svæðinu.

Er þess krafist að eignarréttur Björns verði virtur og fallið verði frá fyrirhuguðum framkvæmdum á bifreiðastæðunum. Verði ekki fallist á þá kröfu er þess krafist að Reykjavíkurborg setji málið í formlegt eignarnámsferli og hefji viðræður við Björn um fullar bætur fyrir skerðingar á eignarrétti hans.

Einnig bárust athugasemdir frá foreldrafélögum Langholtsskóla, Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla, KSÍ, Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, Minjastofnun Íslands, Íbúasamtökum Laugardals, Garðabæ, Kópavogsbæ og Mosfellsbæ.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt