Birgir Örn Steinarsson, sálfræðingur og tónlistarmaður, best þekktur sem Biggi Maus, var að senda frá sér lagið Blóðmjólk með hljómsveitinni &MeMM og myndband með Í laginu skýtur Biggi föstum skotum á svokallaða áhrifavalda.
„Menning íslenskra áhrifavalda hefur verið mér hugleikin upp á síðkastið. Hér er kerfi sem byggist á að fanga athygli okkar, þar sem allt er nýtt í hagnaðarskyni. Meira að segja sjálfsmynd barna okkar. Þetta samfélagsmiðlakerfi hagnast á athygli okkar með því að stýra okkur inn í endalaust samanburð við hvort annað. Með tilkomu gervigreindar er samanburðurinn við eitthvað sem nú er 100 % falsað.
Þegar ég var yngri skiptu heilindi í sköpun máli. Í dag þykir bara töff ef stærstu popptónlistarmenn landsins selja 12-18 ára krökkum þá hugmynd að það sé töff að nota veðmálasíður. Það er eins og að Laddi hefði selt minni kynslóð að púa sígarettur eða reykja krakk,“ segir Biggi í færslu á Facebook.
„Þetta er náttúrulega ádeila. Blóðmjólk titillinn vísar í að blóðmjólka eitthvað og gróði er aðalmálið, og textinn fjallar um menningu samfélagsmiðlastjarna eða áhrifavalda,“ segir Biggi í viðtali við Bítið á Bylgjunni í morgun.
„Það er búið að búa til kerfi sem þar sem athyglin er aðalgjaldmiðillinn og allt er notað í gróðaskyni, meira að segja sjálfsmynd barnanna okkar. Mér finnst það eitthvað til að hugsa um. Myndbandið sem ég gerði, ég tók klippur af Vísi og allt myndbandið er alvöru fréttir.“
Segir hann myndbandið spyrja spurninga, án þess að Biggi spyrji að einhverju kasti hann fram spurningum.
„Sérstaklega finnst mér allt í lagi að spá í því hvað sumir áhrifavaldar eru að auglýsa og það eru nokkrir sem að taka pening til þess að auglýsa veðmálafyrirtæki. Ég skrifaði mína meistararitgerð í sálfræði um spilafíkn og og ég veit að þetta er bara eins og að Laddi hefði verið að bjóða minni kynslóð að púa sígarettur eða reykja krakk. Þetta er algjörlega galið. Allar rannsóknir sýna að sá aldur sem er viðkvæmastur er 12 til 19 ára þegar kemur að spilafíkn sem er akkúrat hlustendahópur þessara rappara.“
Biggi segist einnig tala um algórythmann og segir hann læra á mann sem persónu og þegar notandi skrollar þá sýni algórythminn honum bara þá hluti sem hann hafi áhuga á.
Aðspurður um hvort hann setji sínum börnum reglur þegar kemur að notkun samfélagsmiðla segir Biggi:
„Börnin mín eru svo gömul að ég velti fyrir mér hvort ég klúðraði þessu aðeins. Börnin mín tóku alveg sinn tíma í sumarfríinu að þau bara lögðu símana sína til hliðar.“
Biggi og hljómsveitin hafa þegar tekið upp fleiri lög og framundan er spilamennska víðs vegar. „Ég er bara kominn af stað aftur.“