Íslenskur karlmaður um fertugt var stoppaður af lögreglu á Akureyri og mældist með alkóhól í útblæstri þrátt fyrir að hafa aldrei drukkið deigan dropa. Ástæðan var súrdeigsbrauð sem hann hafði nýlega gætt sér á.
„Ég hef aldrei drukkið,“ segir maðurinn í samtali við DV eftir að hann var stöðvaður af lögreglunni nálægt Akureyri í gær.
Maðurinn var stöðvaður á Hörgárbraut, á þjóðvegi 1, norðan við Akureyri í hádeginu. Vanalega er þetta svæði þar sem hámarkshraðinn er 70 km/klst en hann hafði verið lækkaður vegna framkvæmda.
Maðurinn var að maula á hádegismatnum sínum í bílnum, það er skinkuhyrnu úr súrdeigi. Bað lögreglumaðurinn hann að blása í mæli með túðu framan á og viti menn, það mældist lítils háttar áfengi í útblæstrinum. Þá náði lögreglumaðurinn í annan mæli og aftur mældist alkóhól, það er 0,14.
„Ég heimtaði blóðprufu en hann vildi ekki gera það,“ segir maðurinn og jafn framt að hann hefði orðið mjög hneykslaður á þessu. „Sagði að þetta væri of lítil mæling fyrir fyrir blóðprufu. Hann sagðist ekki ætla að handtaka mig en gæti ekki leyft mér að keyra. Hann sagðist geta keyrt bílinn fyrir mig aðeins lengra en síðan þyrfti ég að bíða.“
Þetta tók hann ekki í mál. Það er að hann væri spyrtur við áfengisneyslu. Mundi hann eftir að hafa heyrt að áfengi myndaðist við súrdeigsgerð og bað lögreglumanninn að fá að skola á sér munninn og blása aftur. Lögreglumaðurinn samþykkti það og viti menn, mælirinn sýndi þá 0,0.
„Hann varð gremjulegur og sagðist eiga bágt með að trúa þessari sögu um súrdeigið,“ segir maðurinn aðspurður um viðbrögð lögreglunnar. En hann fékk að halda áfram að keyra.
Segist hann vilja láta fólk vita af þessu, bæði ökumenn og lögreglu. Það er að súrdeigið geti haft þessi áhrif.
Súrdeig inniheldur mjólkursýrugerla og gergró sem gerja sykrur og breyta þeim í alkóhól og kolsýru. Alkóhólvökvinn getur orðið allt að 18 prósent að styrkleika en gufar að langmestu leyti upp við bökun. Eftir verður afar lítið, en þó eitthvað, áfengismagn í deiginu.
Maðurinn sem lenti í þessu óskemmtilega atviki fyrir norðan bendir einnig á að í téðri skinkuhyrnu sem hann var að gæða sér á sé einnig maltað hveiti.