fbpx
Fimmtudagur 29.maí 2025
Fréttir

Halla lætur sérhagsmunaöflin finna fyrir því – Leigan fór úr 260 þúsund krónum í 430 þúsund

Ritstjórn DV
Mánudaginn 26. maí 2025 14:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er ráðlagt að leggja við hlustir þegar einn ákveðinn kór hefur upp raust sína, nánar tiltekið kór hinna íslensku sérhagsmunaafla,” segir Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, í aðsendri grein á vef Vísis. Þar gerir hún að umtalsefni það sem hún kallar atlöguna að almenna íbúðakerfinu.

„Vorsmellur kórsins í ár gæti borið heitið: „niður með almenna íbúðakerfið“ og er laglínan nokkuð taktföst, þótt hver syngi með sínu nefi og bæti við tónum að eigin vali,“ segir Halla og bætir við að grunnstefið sé að of mikið sé byggt af leiguíbúðum á vegum Bjargs íbúðafélags.

Félagið tryggir tekjulægri einstaklingum og fjölskyldum á vinnumarkaði öruggt íbúðarhúsnæði til langtímaleigu. Halla segir að í umræðum um húsnæðismál kveði nú við þennan tón af hálfu hagsmunaaðila og þannig megi skilja að almenna íbúðakerfið sé hreinlega til vansa í húsnæðismálum þjóðarinnar, komi jafnvel verst niður á þeim sem þar búa.

Biðlistinn er langur

Halla nefnir ekkert af sérhagsmunaöflunum á nafn en í apríl síðastliðnum gaf Viðskiptaráð Íslands út úttekt á húsnæðisstefnu stjórnvalda undir yfirskriftinni Steypt í skakkt mót. Þar var gagnrýnt að stjórnvöld áformuðu að 45% nýrra íbúða í Reykjavík færu í niðurgreidd húsnæðisúrræði utan almenns markaðar á næstu árum.

Halla bendir á að almenna íbúðakerfinu hafi verið komið á með lögum fyrir tæpum áratug og átti meðal annars rætur í yfirlýsingu stjórnvalda með kjarasamningum árið 2015.

„Þá hafði skapast alvarlegur vandi vegna skorts á leiguhúsnæði fyrir efnaminni fjölskyldur og einstaklinga. Fyrsta íbúð Bjargs var afhent árið 2019 og síðan þá hafa yfir eitt þúsund einstaklingar og fjölskyldur komist í öruggt húsnæði. En biðlistinn er langur,“ segir Halla og nefnir að ástæðan fyrir löngum biðlista sé sú að umgjörð um leiguhúsnæði á Íslandi sé óburðug og fjöldi vinnandi fólks á Íslandi hafi ekki ráð á að kaupa sér húsnæði.

„Að fullvinnandi fólk geti ekki komið sér þaki yfir höfuð er gríðarlegt áhyggjuefni og ætti eitt og sér að vera tilefni til bæði langtíma- og skammtímaaðgerða. En á meðan fólk ekki getur eða ekki vill kaupa, til dæmis það sem dvelur tímabundið á landinu, þarf að vera fyrir hendi traustur leigumarkaður.“

Leigan fór úr 260 í 430 þúsund

Halla segir leigusala hafa alltof mikið svigrúm til að hækka leigu eftir eigin geðþótta og segir að réttindi leigjenda séu ótraust. Bjarg hafi sýnt fram á svo ekki verður um villst að hægt er að byggja með hagkvæmari hætti en tíðkast hefur.

„Blær, leigufélag á vegum VR, hefur nýtt reynslu Bjargs til að byggja hagkvæmt og hefur nú þegar afhent 34 leiguíbúðir til leigjenda en þær íbúðir eru ekki háðar tekjumörkum líkt og hjá Bjargi. Blær nýtur engrar opinberrar fyrirgreiðslu og fjárfesting félagsins í íbúðunum skilar sér til baka yfir tíma. Engu að síður getur félagið boðið leiguíbúðir sem eru um 20% ódýrari en markaðsleiga. Fyrsti leigjandinn sem tók við íbúð hjá Blæ hafði þurft að sæta hækkun á leiguverði í sínu fyrra húsnæði úr 260 þúsund krónum í 430 þúsund krónur á aðeins fjórum árum. Það geta ekki margir staðið undir slíkri aukningu á greiðslubyrði,“ segir hún.

Halla segir að þegar „sérhagsmunaraddirnar“ kalla eftir því að dregið sé úr uppbyggingu leiguhúsnæðis þar sem leigu er stillt í hóf sé um leið verið að óska þess að færri leigjendur komist í skjól frá leigumarkaði sem einkennist öðru fremur af skammtímagróðahugsun.

„Og auðvitað er það gott fyrir þá sem græða á leigjendum að fólk hafi ekkert val. Staðreyndin er hins vegar sú að góður og vel skipulagður leigumarkaður stuðlar að heilbrigði í húsnæðismálum, þar sem húsnæði er álitið mannréttindi en ekki gróðatækifæri fyrir fjárfesta. Góð umgjörð um leiguhúsnæði hefur bein áhrif á húsnæðisverð almennt og þar með á hag og kjör þorra almennings.“

Spjótin standa á ríki og sveitarfélögum

Halla segir að lokum að húsnæðismál séu kjaramál og hafi einna mest áhrif á afkomu launafólks. Staðan í dag sé óviðunandi og ekki megi leyfa sérhagsmunaöflunum að rífa niður það sem þó er vel gert.

„Verkefnin framundan eru ærin og Bjarg og Blær eru hluti af lausninni. Spjótin standa núna allra mest á ríki og sveitarfélögum, sem verða að fara að sýna framsækni og þor í að takast á við vandann í húsnæðismálum. Hér er engin ein töfralausn, en við eigum öll rétt á þaki yfir höfuðið á viðráðanlegum kjörum og það er ekki hægt að una lengur við þær gríðarlegu greiðslusveiflur sem bæði leigjendur og húsnæðisskuldarar þurfa að taka á sig í sífellu. Þetta er mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna og nú ríður á að sýna viljann í verki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Kona á sextugsaldri handtekin með tug milljóna króna virði af kannabis eftir flug frá Íslandi

Kona á sextugsaldri handtekin með tug milljóna króna virði af kannabis eftir flug frá Íslandi
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Lítill hluti nemenda uppvís af því að reyna að senda miða á milli borða

Lítill hluti nemenda uppvís af því að reyna að senda miða á milli borða
Fréttir
Í gær

Þrettán ára stúlka bjargaði sér frá árásarmanni með jiu-jitsu brögðum – Ökklabraut óbermið

Þrettán ára stúlka bjargaði sér frá árásarmanni með jiu-jitsu brögðum – Ökklabraut óbermið
Fréttir
Í gær

Svikakvendi handtekið í Aþenu – Fatlaðir ferðalangar urðu strandaglópar á Íslandi – „Þetta var mjög freistandi“

Svikakvendi handtekið í Aþenu – Fatlaðir ferðalangar urðu strandaglópar á Íslandi – „Þetta var mjög freistandi“
Fréttir
Í gær

Saka Festi um brot á sátt við Samkeppniseftirlitið og krefjast þess að fyrirtækið verið brotið upp

Saka Festi um brot á sátt við Samkeppniseftirlitið og krefjast þess að fyrirtækið verið brotið upp
Fréttir
Í gær

Sæþór nýr leiðtogi Sósíalistaflokksins segir reynt að rústa mannorði hans með fölsuðu kynferðisspjalli við ólögráða unglingspilt

Sæþór nýr leiðtogi Sósíalistaflokksins segir reynt að rústa mannorði hans með fölsuðu kynferðisspjalli við ólögráða unglingspilt
Fréttir
Í gær

Birta sex sögur af „svörtum sauðum“ hjá hinu opinbera sem allir fengu milljónir í skaðabætur

Birta sex sögur af „svörtum sauðum“ hjá hinu opinbera sem allir fengu milljónir í skaðabætur
Fréttir
Í gær

Tapsár sósíalisti tók ísskápinn sem hann gaf flokknum tilbaka eftir að hans fólk tapaði kosningunum

Tapsár sósíalisti tók ísskápinn sem hann gaf flokknum tilbaka eftir að hans fólk tapaði kosningunum