Aukinn ferðamannastraumur til landsins hefur gert það að verkum að ekki allir Íslendingar hafa efni á því að ferðast um landið. Margir erlendir ferðamenn hafa samviskubit yfir áhrifunum sem þeir hafa á landið.
Það segir sig sjálft að þegar vara verður eftirsótt þá hækkar verðið. Það á við í ferðamannaiðnaðinum eins og öðrum iðnaði og Íslendingar hafa ekki farið varhluta af þeirri þróun undanfarin ár.
Erlendur ferðamaður sem hefur komið í nokkur skipti greinir frá því á samfélagsmiðlinum Reddit að hann óttist áhrifin sem hann hafi á landið og spyr heimamenn hvaða álit þeir hafa á erlendum ferðamönnum.
Lífleg umræða hefur spunnist og í athugasemdum greinir einn Íslendingur frá því að verðhækkanir sem fylgi ferðamannastraumnum hafi beinlínis gert honum ómögulegt að ferðast um landið með börnin sín.
„Þeir [ferðamennirnir] hafa gert það óhóflega dýrt fyrir mig að ferðast um eigið land,“ segir hann. „Móðir mín keyrði með okkur um landið og við gistum í gestahúsum en ég get ekki gert það með mínum börnum af því að það er svo dýrt.“
Ekki sé langt síðan að hægt var að leigja herbergi í bændagistingu á 5 þúsund krónur fyrir alla fjölskylduna. Í fyrra hafi ódýrasta gistingin sem hann hafi fundið verið 25 þúsund krónur nóttin.
Bendir hann á að ferðalög innanlands kosti það sama og að fara til útlanda. Í stutta stund á covid tímanum varð það gerlegt fyrir fólk að ferðast innanlands.
„Það besta við covid var að ég gat ferðast um landið mitt á ódýran hátt og ég gat skoðað náttúruna og áfangastaði án skara af ferðamönnum,“ segir hann. „Mér líkar það að fólk hafi áhuga á Íslandi og vilji koma en þetta er farið algjörlega úr böndunum. 50 prósent af öllum nýjum bílum sem eru seldir á Íslandi eru bílaleigubílar og vegakerfið okkar er að hrynja.“
Segir hann að ríkisstjórnin ætti að gera eitthvað til að stemma stigu við þessum mikla fjölda ferðamanna en hefur takmarkaða trú á að það gerist í ljósi þess að þetta sé orðinn stærsti iðnaður landsins.
Fleiri taka undir þetta. Ferðamannastaðir séu einfaldlega orðnir allt of dýrir á Íslandi.
„Litlu frændsystkini mín fóru í skólaferðalag um síðustu helgi og það minnti mig á að ég fór í Bláa lónið í skólaferðalagi fyrir um 20 árum síðan, ásamt því að gera marga aðra hluti,“ segir einn. „Þrír kennarar og um 20 krakkar. Ég get ekki ímyndað mér þetta í dag.“
„Ég hef ekkert á móti ferðamönnunum sjálfum. En ég hata ferðamannaiðnaðinn,“ segir annar. „Hann er búinn að eyðileggja Laugaveginn, hótelin eru orðin allt of dýr og spretta upp alls staðar, og þessi fjandans skemmtiferðaskip.“