Hávaðinn í umræðum á Alþingi hefur verið með meira móti eftir stjórnarskiptin. Halda mætti að þjóðfélagið logaði í átökum og götuóeirðum.
Í veruleikanum er hins vegar allt með kyrrum kjörum. Hávaðinn á Alþingi endurspeglar með öðrum orðum ekki hljóðið í samfélaginu.
Um form og aukaatriði geisar stöðugur úthafsstormur. Þegar kemur að stærri spurningum eins og hvert ríkisstjórnin stefnir með Ísland er andstaðan aftur á móti brimlaus.
Hávaðinn um formsatriðin dregur athyglina frá ládeyðunni um málefnin.
Á afmörkuðum sviðum má þó greina málefnalegan og jafnvel hugmyndafræðilegan ágreining. En þá er eins og talsmenn stjórnarandstöðuflokkanna séu jafnvel feimnir við að gera alvöru mál úr því.
Engum flokkanna þriggja í stjórnarandstöðu hefur tekist að stilla upp heilsteyptum málefnalegum valkosti við stjórnarstefnuna.
Sennilega kemst Miðflokkurinn næst því. Hann hefur allt frá stofnun gælt við hugmyndafræði hægri popúlisma. Sú pólitík virkar þó fremur sem gælur. Sennilega vegna þess að djúpu sannfæringuna skortir. Markmiðið sýnist helst vera að halda ímyndinni hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn.
Eftir sjö ára stjórnarsamstarf, sem aðallega gekk út á að drepa mál samstarfsflokka, hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki fundið aftur þessa breiðu hugmyndafræðilegu fjöl, sem gerð var úr frjálslyndi, velferðarhyggju og stefnufestu í utanríkismálum og reyndist lengi góð fótfesta.
Framgangan núna virkar eins og þingflokkurinn sé í stjórnarandstöðu að reyna að snúa röngunni út á klæðum gamla stjórnarsamstarfsins.
Framsókn hefur svo ekki náð að mynda sjálfstæða hugmyndafræði síðan flokkurinn sneri baki við frjálslynda arminum fyrir nærri tveimur áratugum.
Ábyrgð í ríkisfjármálum er þungamiðja stjórnarstefnunnar. Algjör eining virðist ríkja milli stjórnarflokkanna um að árangur á því sviði ráði svigrúminu, sem stjórnin hefur til að efla velferðarkerfið og bæta innviðina.
Munurinn á nýju stjórninni og þeirri gömlu felst ekki í róttækum aðgerðum. Hann felst aðallega í hinu að samstaða er um að ná markmiðum fremur en að tala bara um þau. Aðgerðirnar endurspegla mjög hófsama miðju pólitík.
Stjórnarandstöðuflokkarnir styðja markmið ríkisfjármálanna. Þeir eru fylgjandi blöndu af hagræðingu og tekjuöflun. Þeir hefðu bara viljað annars konar hagræðingu og annars konar tekjuöflun án þess að gera grein fyrir því. Úr verða látalæti en ekki pólitík.
Í orkumálum er stjórnin bara að framkvæma það sem Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn töluðu um í sjö ár meðan þeir töldu stöðvunarvald VG mikilvægara en samstarf við þá flokka, sem voru og eru þeim sammála. Úr verður holtaþokuvæl.
Eftir að ríkisstjórnin tók tillit til athugasemda um veiðigjaldafrumvarpið er hækkunin um sjö milljarðar króna.
Í fjármálaáætlun gömlu stjórnarinnar var gert ráð fyrir fjögurra milljarða króna hækkun á tveimur árum. SFS og sjávarútvegssveitarfélögin sáu enga hættu í þeim áformum og töldu ekkert tilefni til að andmæla þeim í kosningabaráttunni. Þá var þó sannarlega tækifæri.
Kjarni málsins er sá að mismunurinn á tillögunum er aðeins þrír milljarðar.
Það er ákaflega miskunnsamt orðalag að segja sem svo: Hávaði stjórnarandstöðuflokkanna er í eins öfugu hlutfalli við efni málsins og hugsast getur.
En það er ekki allt með þessum hætti.
Margt bendir til að góð samstaða sé um nýja og víðtækari stefnu í varnar- og öryggismálum.
Reynist hald í því er það styrkur stjórnarandstöðuflokka jafnt sem ríkisstjórnar.
Á hinn bóginn virðist vera raunverulegur hugmyndafræðilegur ágreiningur milli stjórnarandstöðuflokkanna og ríkisstjórnarinnar þegar kemur að þátttöku í alþjóðlegu efnahagssamstarfi.
Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn um bókun 35, sem snýst um framkvæmd EES-samningsins. Miðflokkurinn og Framsókn eru algjörlega á móti. Báðir flokkarnir og hluti Sjálfstæðisflokksins eru þannig tilbúnir að fórna þessu mikilvægasta alþjóðlega efnahagssamstarfi, sem Ísland tekur þátt í.
Evrópusambandið er nú eina fjölþjóðlega brjóstvörn viðskiptafrelsis í heiminum. Andstaða allra stjórnarandstöðuflokkanna við frekara Evrópusamstarf lýsir því líka hugmyndafræðilegum ágreiningi um gildi viðskiptafrelsis.
Samt er eins og stjórnarandstöðuflokkarnir séu feimnir við að tala hreint út um þennan hugmyndafræðilega ágreining. Úr verður skrækur málflutningur um eitt mesta hagsmunamál þjóðarinnar.