Hið illvíga eitlakrabbamein sem tónlistarmaðurinn Valgeir Guðjónsson greindist með hefur tekið sig upp á ný og með alvarlegri hætti. Áður hafði Valgeiri verið tjáð að eitlarnir væru orðnir hreinir af meininu.
Fjölskylda Valgeirs greinir frá þessu í dag.
„Pabbi minn, Valgeir Guðjónsson, fékk erfiðar fréttir á dögunum og liggur nú á krabbameinsdeild Landspítalans. Það eru liðin nokkur ár síðan hann greindist fyrst með víðtækt eitlakrabbamein, en eftir ótrúlegan dugnað í meðferðinni sem á eftir fylgdi var greint frá því að eitlarnir væru orðnir hreinir og andaði fjölskyldan léttar,“ segir Arnar Tómas, sonur Valgeirs í færslu á samfélagsmiðlum.
Árið 2021 var greint frá því í fjölmiðlum að Valgeir hefði greinst með krabbamein. Ári seinna var greint frá því að meðferðin hefði gengið vel og væri laus við meinið.
„Það er þó ekki þar með sagt að pabbi hafi náð fullum bata. Hann hefur aldrei náð þeim þrótti sem hann hafði áður en veikindin sóttu að honum. Þegar tónlistin var annars vegar var hann þó í algleymi og var eins og ekkert hefði í skorist. Krabbameinið er nú komið aftur, enn grimmara en áður,“ segir Arnar Tómas.
Segir hann það nú í höndum læknavísindanna að takast á við þennan vágest. Arnar Tómas segir föður sinn furðubrattan og að tónlistin verði alltaf hans haldreipi í baráttunni.
Ásta Kristrún Ragnarsdóttir, eiginkona Valgeirs, ritar einnig færslu um þessar vendingar og birtir mynd af Valgeiri sama daginn og hann greindist með meinið árið 2021. En þann dag var hann að taka upp þátt af Tónatali.
„Í dag er hann búinn að ver í sólarhring á krabbameinsdeild Landsspítalans, nýbúinn að fá endurtekna greiningu á herskáu eitlakrabbameini. Lái honum enginn fyrir að hafa ekki verið eins sprækur og úthaldsmikill og hans er von og vísa,“ segir Ásta Kristrún.