Anja Olsen, prófessor og rannsóknastjóri, segir að árum saman hafi sífellt fleiri, yngri en 50 ára, greinst með ristilkrabbamein. Hún segir að þrátt fyrir að þetta sé enn ekki mikill fjöldi sem fær ristilkrabbamein, þá sé ekki gott að sjá fjöldann aukast. Vitað sé að ristilkrabbamein sé einn þeirra sjúkdóma þar sem lífsstíll fólks skiptir máli.
Vísindamenn vita ekki enn með fullri vissu af hverju tilfellum ristilkrabbameins fer fjölgandi hjá ungu fólki. Olsen sagði að hugsanlegir áhættuþættir ristilkrabbameins séu ofþyngd og sykursýki og þeir leggist hugsanlega á ungt fólk.
„Það passar inn í stærri mynd, þar sem við sjáum einnig fjölgun annarra sjúkdóma hjá yngri aldurshópunum. Skýrasta dæmið er sykursýki 2. Fyrir nokkrum árum var þetta sjúkdómur sem lagðist aðallega á eldra fólk, þetta var kallað „gamalmennasykursýki“. Nú sér maður þetta hjá mun breiðari aldurshópum, meira að segja hjá unglingum,“ sagði hún.
Hún sagði alls ekki útilokað að fólk glími við áhættuþættina fyrr en áður og það geri að verkum að ristilkrabbameins þróist fyrr.
Independent segir að nú fái 52% fleiri á aldrinum 25 til 49 ára ristilkrabbamein en í upphafi tíunda áratugarins.
Í rannsókn, sem hefur verið birt í vísindaritinu Nature, reyndu vísindamenn að finna ástæðurnar fyrir þessari aukningu. Þeir benda á að börn, sem komast snemma á lífsleiðinni í snertingu við efnið „colibactin“ eigi hugsanlega meira á hættu að fá ristilkrabbamein áður en þau verða fimmtug.
Colibactin er afurð þarmabakteríunnar E.coli og sagðist Olsen telja að þessi uppgötvun passi vel í það púsluspil sem vísindamenn eru nú að reyna að leysa. „Við vitum að fólk, sem til dæmis er í ofþyngd, er með aðra bakteríusamsetningu í þörmunum. Við vitum að mataræðið hefur mikil áhrif á bakteríusamsetninguna í þörmunum. Ef maður tileinkar sér snemma óhollan lífsstíl, til dæmis of mikið af óhollum mat, þá tel ég að púslin passi vel í heildarmyndina,“ sagði hún.