Janus endurhæfing bauð skjólstæðingum sínum upp á þverfaglega læknisfræðilega heildræna geðendurhæfingu. Úrræðið var sérhæft fyrir ungt fólk, 18 ára og eldra og hafði úrræðið verið starfrækt í 25 ár.
„Við þátttakendur í Janusi endurhæfingu erum mjög viðkvæmur hópur af einstaklingum með fjölþættan vanda og hefur verið fyrir utan vinnu, náms og virkni í lengri tíma. Margir hafa erfiðleika við það að koma sér úr rúminu, hvað þá út í samfélagið, eftir að hafa lokað sig af í mislangan tíma. Þessi hópur á erfitt með breytingar og óvissu og er ekki tilbúinn í hefðbundin atvinnutengd úrræði. Við þurfum utanumhaldið sem Janus endurhæfing hefur boðið upp á.“
Þann 26. febrúar byrjuðu þátttakendur Janusar að fá símtöl þar sem þeim var tilkynnt að öllu starfsfólki hefði verið sagt upp og að óbreyttu myndi Janus skella í lás þann 1. júní, og á kynningarfundi 3. mars lá fyrir að Janus yrði lokað. Þar ákváðu þátttakendur og aðstandendur að berjast fyrir þessu mikilvæga úrræði, en sú barátta hefur ekki borið árangur. Eden segir að ástandið hafi vakið gífurlegan kvíða meðal viðkvæmra skjólstæðinga Janusar sem margir hafa nú hætt endurhæfingu og aftur farið að einangra sig.
Hópur þeirra sem berjast fyrir úrræðinu sendi fundarboð á Ölmu Möller heilbrigðisráðherra þann 1. apríl en engin svör bárust. Eftir að hafa ítrekað erindið fékkst svar frá ráðherra sem sagðist ekki komast á fundinn og sendi aðstoðarmann í staðinn. Hópurinn bauð eins þingmönnum í velferðarnefnd að kíkja í heimsókn í úrræðið og kynna sér starfsemina. Enginn úr stjórnarflokkunum þáði boðið. Aðeins þingmenn í stjórnarandstöðunni hafi látið sig málið varða. Þrátt fyrir að ráðherra hafi svarað ýmsu um framtíð skjólstæðinga Jansuar hafi engin skýring þó borist á því hvers vegna loka þurfi þessu mikilvæga úrræði. Ráðherra haldi því fram að öllum skjólstæðingum hafi þegar verið boðin viðeigandi þjónusta í samræmi við þjónustuþarfir hvers og eins, ýmist hjá VIRK eða á Landspítala. Edin segir þá fullyrðingu ekki standast skoðun.
„Þessi fullyrðing er kolröng. Staðan er sú að af þeim 55 sem eru í þjónustu Janus hafa 13 einstaklingar ekki fengið neitt að heyra varðandi framhald sitt í kerfinu, og a.m.k. 49 hefur einfaldlega verið skipað í þau úrræði sem VIRK ákvarðar að séu rétt fyrir þau.“
Sjá einnig: Undirskriftalisti til að koma í veg fyrir lokun hjá Janusi endurhæfingu
Eden bendir á að ráðherra hafi lofað einstaklingsmiðuðu viðhorfi, sem sé nauðsynlegt fyrir þennan hóp þar sem fólk glímir við fjölþættan vanda. Eden segir að ráðherra og ráðuneyti líti ekki á þetta fólk sem manneskjur heldur sem gögn á blaði sem sé hægt að hola niður eftir einhverjum reikniformúlum. „Heilbrigðisráðherra og stjórn VIRK hefur algjörlega brugðist okkar hóp með þessari ákvörðun sinni.“
Þar sem engar skýringar hafa borist á því hvers vegna loka þurfi Janus kemst Eden ekki hjá því að velta því fyrir sér hvaða hvatir liggi þarna að baki.
„Maður spyr sig hvort þetta sé í rauninni um geðheilsu og endurhæfingu ungs fólks eða hvort staðan sé einfaldlega sú að mannvonska yfirvalda eru til í leggja líf ungs fólks í hættu vegna þess að þeim líkar ekki við fyrirtækið sem bjargar þeim. Erum við komin það djúpt í dystópíuna að örfáar manneskjur fái með mannvonsku sinni að tryggja óvirkni að jafnvel dauða fyrir einn viðkvæmasta hóp þjóðarinnar?“
Eden bendir á að líf 55 skjólstæðinga sem og þeirra 50 sem enn biðu á biðlista sé í húfi. Hán hvetur stjórnvöld til að endurskoða ákvörðun sína áður en það er of seint. Tilboð um slíkt liggi á borðinu frá Janusi svo boltinn sé hjá stjórnvöldum.
„Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Það eina sem við biðjum um er samúð.“