Skiptum er lokið í þrotabúi fiskvinnslufyrirtækisins Frostfisks ehf. á Þorlákshöfn. Uppgjörið hefur tekið rúm sjö ár en fyrirtækið var úrskurðað gjaldþrot þann 27. júní 2018.
Lýstar kröfur í búið voru alls 1.030.985.054 krónur en samkvæmt úthlutunargerð greiddust 350 þúsund krónur upp í búskröfur og rúmar 300 milljónir króna fengust upp í veðkröfur. Þá greiddust um 139 milljónir króna upp í forgangskröfur. Ekkert fékkst hins vegar greitt upp í almennar kröfur og eftirstæðar kröfur.
Skömmu fyrir gjaldþrot Froskfisks á sínum tíma var greint frá því að forsvarsmenn félagsins hefðu ákveðið að færa starfsemina til Hafnarfjarðar. Um var að ræða mikið reiðarslag fyrir Þorlákshöfn en félagið var stærsti atvinnurekandi bæjarfélagsins með um 50 störf.