fbpx
Laugardagur 10.maí 2025
Fréttir

Fráleitt að rugla skipulag Grafarvogs með þéttingu – „Borgarstjórnin nýja getur enn þá hætt við“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 10. maí 2025 12:00

Jón hefur skrifað um málið á síðu sína grafarvogur.net.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón G. Hauksson, ritstjóri og útgefandi, er einn af fjölmörgum íbúum í Grafarvogi sem barist hafa gegn þéttingaráformum borgarstjórnar í hverfinu. Hann segir þéttinguna hafa marga slæma ókosti og að enn þá sé tækifæri fyrir íbúa að láta í sér heyra.

Jón er ritstjóri og útgefandi hverfismiðilsins grafarvogur.net sem fór í loftið um miðjan febrúar. Eitt heitasta málið sem hefur verið í umræðunni þar er yfirvofandi þétting byggðar, hér og þar í hverfinu sem margir íbúar hafa mótmælt harðlega. Jón er einn af þeim og nefnir ýmsar ástæður fyrir þessari andstöðu.

„Það er ótrúlega mikil umferð sem mun fara um Grafarvogshverfið á næstu árum,“ segir Jón og bendir á mikla fyrirhugaða uppbyggingu í Blikastaðalandi, Korputúni, Ártúnsholti, Keldnaholti og víðar. „Þess utan þola innviðir eins og vegir og skólar ekki þéttinguna. Þá leyfa borgaryfirvöld sér að ganga á græn svæði og troða niður húsum á litla bletti hér og þar. Það er verið að byrja útsýni fyrir ökumönnum og áfram mætti telja.“

Reiða sig á skipulagið

Hann er einn af hundruðum íbúa sem hafa sent inn mótmæli og athugasemdir til borgarinnar. Bendir hann á að Grafarvogurinn sé gróið hverfi. Fólk hafi tekið ákvörðun um að fjárfesta og búa þar út frá gildandi deiliskipulagi og fráleitt sé að fara að hrista upp í því allt í einu með því að troða niður húsum hér og þar. Íbúarnir hafi lifað með núverandi skipulagi árum saman og reitt sig á það.

„Það hefur sýnt sig að þar sem hefur verið þétt í Reykjavík er verið að búa til miklu dýrari íbúðir. Íbúðir sem ungt fólk hefur ekki tök á að kaupa,“ segir Jón. „Svo fylgir mikið jarðrask þessu og hér verður mikið af byggingakrönum á næstunni.“

„Háaleitis hörmungin“

Jón bendir á dæmi frá Háaleitisbraut sem hann kallar hættulega, það er „Háaleitis hörmungina.“ En það er nýtt hús sem er að rísa á horninu á Háaleitisbraut og Kringlumýrarbraut.

„Húsið liggur alveg upp að gangstétt. Þetta hús er dæmi um þá þéttingarstefnu sem er verið að demba yfir okkur í Grafarvoginum,“ segir Jón. Meira svæði þurfi svo að til dæmis sé hægt sé að lagfæra og betrumbæta umferðarmannvirki.

Það er lítil kátína í Grafarvogi með þéttingaráformin. Mynd/Wikipedia

Áformin um þéttinguna voru kynnt fyrir þó nokkru síðan, í tíð fyrri borgarstjórnar, og reglulega hafa borist fréttir af óánægju íbúa sem meðal annars hefur komið fram á íbúafundum.

Jón segir að vissulega sé auglýst samráð en það sé hins vegar tvískinnungur á bak við það.

„Það er auglýst að fólk geti mótmælt og gert athugasemdir við þessa þéttingarstefnu og einstaka þéttingarreiti. En borgarstýrurnar nýju eru þegar byrjaðar að úthluta, reyndar með skilyrðum, nokkrum þessara lóða til byggingafélaga. Það er tvískinnungur í þessu,“ segir hann aðspurður um hvort hann telji þetta vera eins konar sýndarsamráð. „Við Grafarvogsbúar höfum það á tilfinningunni að við séum að mótmæla en það verði ekkert gert með mótmælin.“

Fækkun ekki nóg

Fyrir skemmstu var tilkynnt að borgarstjórn hafi ákveðið að draga úr byggingaráformunum. Það er fækka væntanlegum íbúðum úr 476 í 340 en Jón segir það engan vegin vera nóg. Vísar hann til íbúafundar sem haldinn var að Borgum í Spönginni þann 20. mars síðastliðinn því til staðfestingar.

„Þar var húsfyllir, troðfullur salur og komust færri að en vildu. Þar var íbúum ekki gefin kostur á að mótmæla fyrir opnum fundi heldur áttu þeir að makka eftir á fyrir framan nokkra skjái. Þar reis fundurinn upp og sagði hingað og ekki lengra. Þar kom fram skýr vilji um að þessi fækkun íbúða sé engan vegin viðunandi. Fundargestir sögðust allir sem einn vera algjörlega á móti þessum tillögum,“ segir Jón.

Ekki búið spil

Aðspurður um hvað taki við núna, hvernig hann og aðrir ósáttir Grafarvogsbúar muni beita sér í málinu héðan í frá, bendir Jón á að málið sé ekki afgreitt. Ekki sé búið að auglýsa skipulagið eða samþykkja það. Þangað til munu íbúar halda áfram að mótmæla.

„Það er enn þá hægt að mótmæla og gera athugasemdir. Það er ekki búið að taka endanlega ákvörðun um þetta heldur á að gera það í júní eða júlí. Þangað til er hægt að láta í sér heyra því að borgarstjórnin nýja getur enn þá hætt við,“ segir hann að lokum.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Staksteinar gera stólpagrín að borgarfulltrúa Pírata

Staksteinar gera stólpagrín að borgarfulltrúa Pírata
Fréttir
Í gær

Segir Trump nánast vera kominn á „norðurkóreskt stig“

Segir Trump nánast vera kominn á „norðurkóreskt stig“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jón leggur til róttæka breytingu á frídögum – „Að mínu mati er þetta fyrirkomulag óheppilegt“

Jón leggur til róttæka breytingu á frídögum – „Að mínu mati er þetta fyrirkomulag óheppilegt“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þorvaldur Lúðvík íhugar réttarstöðu sína eftir Kastljósið í gær – „Ég hefði engu breytt eða gert öðruvísi“

Þorvaldur Lúðvík íhugar réttarstöðu sína eftir Kastljósið í gær – „Ég hefði engu breytt eða gert öðruvísi“