Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa hefur lagt fyrir ónefnda bílaleigu að endurgreiða erlendum ferðamanni dráttarkostnað vegna bíls sem hann leigði hjá bílaleigunni. Hafði ferðamaðurinn leigt bílinn í október en hann var enn á sumardekkjum og á meðan leigutímanum stóð festist bíllinn í snjóskafli og þurfti ferðamaðurinn að leita til þriðja aðila í því skyni að losa bílinn. Hafði ferðamaðurinn áður en atvikið átti sér stað lýst yfir áhyggjum sínum við bílaleiguna af því að dekkin á bílnum væru ófullnægjandi við þær aðstæður sem komið gætu upp í akstri um Ísland á þessum árstíma. Bílaleigan vildi hins vegar lítið gera fyrir hann.
Í úrskurði nefndarinnar segir að ferðamaðurinn hafi leigt bílinn í um 10 daga í október 2024 og greitt um 120.000 krónur fyrir. Innifalið í verðinu var meðal annars auka bílstjóri. Á meðan leigutímanum stóð lenti ferðamaðurinn í hálku og festi bifreiðina í snjóskafli utanvegar og óskaði eftir vegaaðstoð þriðja aðila en ekki kemur fram hvar á landinu þetta gerðist. Greiddi hann 95.300 krónur í dráttarkostnað til viðkomandi. Í kjölfarið krafðist maðurinn endurgreiðslu dráttarkostnaðar úr hendi bílaleigunnar þar sem hann taldi að bifreiðin hefði verið vanbúin til aksturs á þessum árstíma í ljósi þess að hún hafi verið á sumardekkjum. Við skil á bifreiðinni í lok leigutímans endurgreiddi bílaleigan honum 13.200 krónur sem hann hafði áður greitt fyrir auka bílstjóra en hafnaði endurgreiðslu dráttarkostnaðar.
Í kæru sinni tók maðurinn fram að bílstjóri dráttarbíls sem hann hefði kallað til hefði staðfest að þetta óhapp mætti rekja til ófullnægjandi dekkjabúnaðar á bílnum.
Sagðist ferðamaðurinn alvanur að aka bifreið í vetrarfærð og taldi að ef bifreiðin hefði verið búin vetrardekkjum hefði atvikið líklega ekki átt sér stað. Áleit hann að aðbúnaður bifreiðarinnar hafi verið með þeim hætti að óöruggt hafi verið að aka henni og hafi bílaleigan auðveldlega getað komið í veg fyrir það með því að setja vetrardekk undir hana. Benti maðurinn á auglýsingar bílaleigunnar sem gæfu til kynna að allar fjórhjóladrifnar bifreiðar hennar réðu við íslenskt veðurfar á haust- og vetrarmánuðum. Hafi hann þar með átt að geta treyst því að bifreiðin væri þannig búin að unnt væri að aka henni við þessar aðstæður.
Sagði maðurinn bílaleiguna enga aðstoð hafa boðið þegar hann hafi tilkynnt um atvikið og kennt honum um það. Hafi honum loks verið boðið að skipt yrði um dekk ef hann myndi sjálfur aka bílnum til Reykjavíkur sem hann taldi óviðunandi í ljósi þess að um langan veg væri að fara við varasamar aðstæður á sumardekkjum.
Vildi maðurinn meina að bílaleigan hefði margbrotið eigin skilmála og krafðist auk endurgreiðslu dráttarkostnaðar þess að fá 30 prósent afslátt af heildaleiguverðinu vegna óþægindanna sem hann hefði orðið fyrir.
Bílaleigan veitti engin andsvör í málinu. Í niðurstöðu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa segir að ferðamaðurinn hafi sent bílaleigunni tölvupóst þremur dögum eftir að hann tók við bílnum en atvikið átti sér stað tveimur dögum síðar. Í tölvupóstinum hafi hann lýst yfir áhyggjum af því að gripið á dekkjunum væri ekki nógu gott við vetraraðstæður.
Þegar atvikið hafi átt sér stað hafi bílaleigan svarað honum á þann hátt að hann bæri sjálfur ábyrgð á því, nagladekk væru ekki leyfð á Íslandi í október og samkvæmt skilmálum fyrirtækisins greiddi það ekki kostnað við vegaaðstoð.
Segir nefndin að í skilmálum bílaleigunnar sé hvergi að finna ákvæði sem kveði á um hvor aðila að leigusamningi sé ábyrgur fyrir kostnaði sem hljótist af því að draga þurfi bifreið í umræddum aðstæðum. Ekkert liggi fyrir um að maðurinn hafi ekið bifreiðinni af gáleysi og ljóst hafi mátt vera að vetraraðstæður gætu skapast í október. Legið hafi fyrir að maðurinn myndi aka um landshluta, sem ekki er nefndur, þar sem vel hafi mátt búast við slíkum aðstæðum á þessum árstíma og að samkvæmt reglugerð sé leyfilegt að aka á negldum hjólbörðum í október ef aðstæður krefjist þess. Maðurinn hafi að auki lýst áhyggjum sínum af dekkjunum við bílaleiguna, áður en óhappið varð og hún ekki komið á nokkurn hátt til móts við hann. Því beri bílaleigunni að greiða manninum 95.300 krónur vegna þess dráttarkostnaðar sem hann hafi þurft að bera.
Þar sem maðurinn hafði þegar fengið 13.200 krónur endurgreiddar var hins vegar ekki fallist á kröfu hans um 30 afslátt af heildarleiguverðinu.