fbpx
Þriðjudagur 06.maí 2025
Fréttir

Skítamál Kópavogs og Garðabæjar enn þá óleyst – Sprettsmenn segja að bæirnir verði að taka við taðinu

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 6. maí 2025 17:00

Sprettsmenn eru óþreyjufullir eftir svörum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Taðmál Kópavogs, Garðabæjar og hestamannafélagsins Spretts eru enn óleyst en önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taka við taði. Sprettsmenn segja að kostnaðurinn við móttöku hjá Sorpu sé slíkur að hann komi í veg fyrir að allir sem vilji geti stundað áhugamálið.

Sprettur hefur sent sveitarfélögunum erindi og óskað eftir langtímalausn á vanda félagsins. Bent er á sligandi kostnað fyrir félagið.

Rúmur fimm hundruð kall á dag á hvert hross

Hjá Sorpu er hrossatað flokkað og skattlagt sem úrgangs eða spilliefni og greiða þarf 26 krónur á kílóið fyrir förgun. Frá hverju hrossi kemur um 20 kíló af taði á sólarhring, sem kostar 520 krónur að farga. Sprettur áætlar að á hverju ári verði til um það bil 4 þúsund tonn af taði á félagssvæðinu á Kjóavöllum þar sem eru um 2 þúsund hross. Að losa hvern gám kostar um 500 þúsund krónur.

Í bréfi Spretts frá 27. apríl síðastliðnum til Kópavogsbæjar er bent á að Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hafi árið 2021 gefið út heildarstefnu í úrgangsmálum og þar segi að stuðla beri að sjálfbærri auðlindanýtingu og að úrgangur verði meðhöndlaður á þann hátt að hann skapi ekki hættu fyrir menn, dýr eða umhverfið. Nýta skuli lífrænan úrgang sé þess kostur og helst næst þeim stað þar sem hann verður til. Einnig að stefnt skuli að samdrætti í urðun.

„Af þessu verður ekki annað ráðið en skylda sé lögð á sveitarfélögin og hestamenn, sem „framleiðendur“, að nýta taðið á sem hagkvæmastan hátt til jarðgerðar, til að bæta jarðveg eða vinna úr honum áburð og þá í nærumhverfinu sé þess nokkur kostur,“ segir í bréfinu.

Nota tað í uppgræðslu og landfyllingu

Í Reykjavík er tað frá félagssvæði hestamannafélagsins Fáks nýtt til landmótunar og jarðvegsbætingar á svæði væntanlegs kirkjugarðs við Úlfarsfells. Er taðinu blandað saman við mold sem tekin er frá öðrum uppbyggingarsvæðum í borginni.

Mosfellingar taka tað frá hestamannafélaginu Herði og flytja á bújarðir bænda í nágrenninu. Þar er taðið nýtt til áburðargjafar og uppgræðslu.

Þá hefur Hafnarfjörður leyst taðmálin hjá hestamannafélaginu Sörla með þeim hætti að nýta taðið til uppgræðslu í landi Hafnarfjarðar. Nýlega lét bærinn bóka það að engin breyting væri fyrirhuguð í þeim efnum.

Sjá einnig:

Hafnfirðingar hrifnir af hrossataði

Taðmálin hjá Kópavogi og Garðabæ séu hins vegar enn þá óleyst. Að sögn Spretts hefur félagið komið með tillögur að framtíðarlausn um að nýta taðið til uppfyllingar og uppgræðslu innan beggja sveitarfélaga. Fundir með Garðbæingum hafi verið jákvæðir en segja þeir að ef ekki semst við Kópavog þá muni Garðabær einungis taka við taði frá hesthúsum á þeim hluta félagssvæðis Spretts sem tilheyri Garðabæ.

Kópavogur vildi ekki taka við taði

Í bréfi Kópavogsbæjar til Spretts fyrir rúmu ári sagði að Kópavogur væri ekki viljugur að taka við taðinu.

„Sveitarfélög koma ekki að meðhöndlun úrgangs annarra félagasamtaka eða fyrirtækja og sama þarf að gilda fyrir hestamannafélagið Sprett. Þá hefur Kópavogsbær ekki áhuga á að taka við neinu magni hrossataðs,“ sagði í bréfinu. Kópavogsbær myndi ekki leggja til losunarstaði fyrir hrossatað í sínu bæjarlandi.

Sögðust ekki finna tíma

Kemur fram í erindi Spretts að fulltrúi Kópavogs hafi fundað með Spretti, Garðabæ og Heilbrigðiseftirlitinu og hrósað framlögðum tillögum en síðan hafi lítið gerst.

„Eftir það hafa þau svör þó ein fengist frá starfsfólki umhverfissviðs Kópavogs að þau neita Spretti um fundi varðandi málefnið og „finna ekki tíma“ til þess að skoða málið sín megin. Borist hefur það svar eitt að málefnið þurfi að fara fyrir skipulags- og umhverfisráð sem ekki getur tekið málið til umfjöllunar fyrr en í maí,“ segir í bréfi Spretts.

„Hestamannafélagið Sprettur lítur á sig sem eina einingu í hvoru bæjarfélaginu sem staðsetning tiltekinna hesthúsa er. Öll misskipting á borð við „þessi losar sitt tað þarna og hinn hvergi…“ gerir ekki annað en að að skapa óeiningu og neikvæðni fyrir alla starfsemi félagsins,“ segir í öðru bréfi.

Málið var tekið fyrir hjá skipulags- og umhverfisráði Kópavogs í gær, 5. maí, og sviðinu falið að finna viðunandi skammtímalausn og leggja tillögu að langtímalausn. Ekki kemur hins vegar fram hvað þær fela í sér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Útburður að hefjast á Sigurbjörgu úr hryllingshúsinu við Bríetartún – „Ég fékk tvo virka daga til að vinna í málinu“

Útburður að hefjast á Sigurbjörgu úr hryllingshúsinu við Bríetartún – „Ég fékk tvo virka daga til að vinna í málinu“
Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Hanna Katrín segir leiðréttinguna löngu tímabæra og þjóðina eiga skýlausan rétt á henni

Hanna Katrín segir leiðréttinguna löngu tímabæra og þjóðina eiga skýlausan rétt á henni