Vélin var á flugi yfir norðausturhluta Bólivíu þegar flugmaðurinn neyddist til að nauðlenda henni í mýri í Amazon í Bólivíu. Auk hans voru þrjár konur og eitt barn um borð í vélinni.
Eftir að fólkinu hafði verið bjargað sagði flugmaðurinn fjölmiðlum að lendingin hefði „verið hörð“ og að vélin hefði lent á hvolfi. Þau hefðu ekki getað komist á brott frá brotlendingarstaðnum og hafi neyðst til að hafast við ofan á flakinu sem marraði hálft í kafi.
Hann sagði að „stórir krókódílar“ hafi verið allt í kringum vélina og hafi verið í aðeins um þriggja metra fjarlægð frá henni. „Þeir voru stöðugt í þriggja fjögurra metra fjarlægð frá okkur og voru þarna allan daginn og nóttina en náðu aldrei til okkar,“ sagði hann.
Hann notaði ljósið í farsíma sínum til að fylgjast með krókódílunum og sagðist telja að þeir hafi ekki nálgast vélina vegna bensínlyktarinnar sem myndaðist þegar bensín lak úr vélinni út í vatnið.
Það var einnig mikið af slöngum í vatninu og fólkið þurfti stöðugt að berjast við moskítóflugur.
Þau höfðu ekkert að drekka.
Að lokum heyrðu þau í fiskibáti og gaf flugmaðurinn áhöfn hans ljósmerki og hrópaði á hjálp. Í kjölfarið var þyrla send á staðinn til að bjarga þeim og voru þau flutt beint á sjúkrahús.
Flugmaðurinn sagði að þau hafi verið björguninni fegin því þau hefðu ekki lifað aðra nótt af í mýrinni.