Lögregla og sjúkralið voru kölluð að skemmtistað í miðborginni í nótt vegna manns sem svaf ölvunarsvefni inni á baðherbergi. Þegar sjúkralið reyndi að ræða við manninn brást hann ókvæða við og reyndi að slást við viðbragðsaðila. Var hann handtekinn og fluttur á lögreglustöð þar sem hann var vistaður þar til rennur af honum.
Frá þessu greinir í dagbók lögreglu. Það kemur fram að fimm gista fangageymslur lögreglu eftir nóttina. Alls eru 85 mál skráð í kerfi lögreglu frá kl. 17 í gær til 5 í morgun.
Tilkynnt var um mann eða konu sem var að taka föt úr söfnunargámi. Atvikið átti sér stað í Breiðholti eða Kópavogi. Afgreiddi lögregla málið á vettvangi, væntanlega með tiltali, en það kemur ekki fram í dagbókinni.
Nokkrir ökumenn voru handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna. Við öryggisleit á einum slíkum fannst töluvert af fíkniefnum og er hann grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna. Var hann vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.