Það óhuggulegasta við hálfrar aldar afmæli kvennabaráttunnar á Íslandi á þessu herrans ári, sem nú lyftir sólu, er að það hallar jafnt á mannúðina og réttlætið. Slík er öfugþróunin. Og afturkippurinn er áþreifanlegur. Eða öllu heldur hrollvekjandi, svo kaldan sláttinn leggur niður hryggsúluna.
Því nú um stundir er kvennafráhyggja trommuð upp að truflaðra manna hætti. Það er ofstæki okkar tíma. Akkúrat það að karlmenn skuli sýna konum hverjir raunverulega hafa völdin, hér eftir sem hingað til. Slíkar stunur heyrast í Vesturheimi, en kveinstafirnir korra líka í kokum okkar heimamanna.
Því við skulum bara viðurkenna hvernig við högum okkar tali, á kaffistofum, jafnt sem kjörinna manna sölum. Þráin eftir hagnýtu húsmóðurinni er nefnilega aftur komin í þingtíðindi, þegar fjórðungur er liðinn af nýrri öld. Staða hennar skuli enn sem fyrr vera á bak við eldavélina.
En hvernig tókst okkur að byrja að tapa því sem við höfðum svo lengi þráð að vinna? Af hverju í ósköpunum erum við byrjuð að glutra niður þeim mikilvægu markmiðum mannréttindabaráttu okkar sem við héldum lengi vel að væru löngu slegin í gadda?
Svarið er sífúlt. Það eltir okkur um ævi og aldur.
Íhaldssemi er nefnilega allra tíma. Hún hverfur ekki þótt frjálslyndi rísi og reyni að festa sig í sessi. Því afturhaldið er ótti berrassaðra afla allra kynslóða sem sækja atkvæði sín í einsleitni og útskúfun. Og sú óttafulla trúarskoðun, miklu frekar en heilbrigð skoðanapólitík, hefur alltaf verið þeirrar geðshræringar að maðurinn skuli óttast það óþekkta og óvanalega.
Það heitir í sem skemmstu máli að kvíða breytingum – og byltingum. Og geta ekki unað við þær.
„Hugsanahátturinn er nefnilega þessi; ekkert breytist, það þarf ekkert að breytast.“
Kvenréttindabarátta síðustu hálfrar aldar hefur leiðrétt valdaójafnvægi í okkar heimshluta. Og var víst tími til kominn. Konur hafa sótt fram af fullum krafti á öllum sviðum samfélagsins – og eru um að bil að leiðrétta skekkjuna sem hefur verið viðvarandi í samskiptum kynjanna um aldir alda.
Og hver er áhættan? Jafnrétti? Jöfnuður? Réttlæti? Sanngirni? Sama kaupið? Sömu völd?
Svar karlhyggjunnar á seinustu tímum er ofstækisfull íhaldssemi, forherðing, flimtingar – og þaðan af meðvirkari hægristefna – og hún svífst einskis svo hún fái náð að nýju stöðu yfirburðavaldsins. Á sama tíma er hún líklega mesta ógnin við það frjálslynda hugarfar sem hefur dafnað og nærst í betur og best heppnuðu samfélögum seinni tíma þar sem áhersla hefur verið lögð og lýðréttindi og jöfnuð.
En viljum við einmitt flýja þann fögnuð? Og halda aftur í einkynið?
Karlagrobb síðustu áratuga, einmitt það sem af er þessari öld, hefur í fjölmörgum tilvikum fjallað um fliss í garð kynjaðra leikskóla, kynjaðra fléttulista stjórnmálaflokka, svo og úrtölur um kynjaða fjárlagagerð og hagstjórn, og kynjaðar stjórnir hjá fyrirtækjum og stofnunum. Og nú síðast er hváð yfir kynjuðum klósettum. En þvílíkur óþarfi sem það nú sé, þegar fyrir liggi að kynin séu bara tvö. Og þau skuli bara vera svo um aldur og ævi.
Hugsanahátturinn er nefnilega þessi; ekkert breytist, það þarf ekkert að breytast.
Og á Alþingi okkar daga er fussað og sveiað yfir kynjafræði af því að hún geti varla talist vera fag á borð bið fornbókmenntir og sögu, hvað þá hagfræði og lögmennsku.
Allt breytist, það er það eina augljósa í heimi hér, en sagan frá því konur fylltu Lækjartorg fyrir hálfri öld er merki þess og sönnun. Og hvað svo? Fimmtíu árum seinna er óttinn við jafnrétti að vaxa. Enn er byrjað að tala niður til kvenréttinda og fjölbreytileika. Rétturinn yfir eigin líkama skuli afnuminn.
Og enn þarf kannski að lyfta sömu kröfuspjöldunum á Lækjartorgi.