Útfararstjóri í Pennsylvaníu hefur verið ákærður og segja saksóknarar að hann hafi hent hræjum þúsunda gæludýra, en eigendur þeirra höfðu greitt fyrir greftrun og líkbrennslu dýranna.
Patrick Vereb 70 ára er eigandi útfararheimilisins Vereb Funeral Home and Eternity Pet Memorial í Pittsburgh í Bandaríkjunum. Hann er ákærður fyrir að farga þúsundum hunda og katta á óviðeigandi hátt, en viðskiptavinir höfðu greitt fyrir líkbrennslu og greftrun dýranna á árunum 2021 til 2024, samkvæmt fréttatilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu í Pennsylvaníu.
Eftir rannsókn komust saksóknarar að því að Vereb á að hafa tekið yfir 650 þúsund dali frá yfir 6.500 viðskiptavinum í skiptum fyrir einkaútfararþjónustu gæludýra þeirra. En í staðinn er sagt að Vereb hafi fargað mörgum gæludýranna á urðunarstað og útvegað eigendum þeirra ösku af óþekktum dýrum.
Embætti ríkissaksóknara tilkynnti mánudaginn 28. apríl að Vereb hafi verið ákærður fyrir brot á þjófnaði með blekkingum, móttöku á stolnum eignum og villandi viðskiptahætti.
„Þetta mál er óhugnanlegt og veldur mörgum íbúum Pennsylvaníu skelfingu og sorg,“ sagði Dave Sunday, dómsmálaráðherra, í yfirlýsingu. „Gæludýrin okkar eru fjölskyldumeðlimir okkar og ákærði sveik og kvaldi gæludýraeigendur sem fólu honum að veita ástkærum dýrum virðulega þjónustu.“
Embætti ríkissaksóknara hefur opnað vefsíðu sem fórnarlömb eru hvött til að nota til að fylgjast með málinu. Þeir hafa hingað til borið kennsl á fórnarlömb frá Allegheny, Armstrong, Washington og Westmoreland sýslum.
Vereb var ákærður á mánudag og sleppt að lokinni fyrirtöku. Hann hefur ekki svarað ákærunni og á að mæta aftur fyrir rétt þann 9. maí.