
Hansi Flick, stjóri Barcelona, vill ekki gefa mikið upp um framtíð Robert Lewandowski hjá félaginu eftir þetta tímabil.
Lewandowski verður 37 ára á árinu en er enn í fullu fjöri. Þessi fyrrum leikmaður Bayern Munchen og Dortmund verður hins vegar samningslaus í sumar.
„Ef þú spyrð um næsta tímabil, þá veit ég það ekki. Ég er ánægður með Lewandowski og vinnuframlag hans. Hann er á góðum stað,“ segir Flick.
Pólski stjörnuleikmaðurinn hefur verið orðaður við félög í Sádi-Arabíu en einnig AC Milan á Ítalíu.
„Ég veit ekki enn hvar ég vil spila. Þetta veltur á áætlunum félagsins og því sem ég vil gera,“ sagði Lewandowski sjálfur fyrir áramót.