
Fyrrverandi úrvalsdeildardómarinn David Coote hefur hlotið níu mánaða fangelsisdóm, skilorðsbundinn til tveggja ára, eftir að hafa játað brot tengt ólöglegu myndefni af barni.
Coote, sem er 43 ára, var ákærður eftir að ósæmilegt myndband af barni fannst á tæki í hans eigu í febrúar 2025. Var málið sett í alvarlegasta flokk brotamála af þessu tagi.
Myndbandið sýndi 15 ára dreng. Coote játaði sök við þingfestingu málsins í október og dómur var kveðinn upp við Nottingham Crown Court.
Coote var rekinn sem dómari af ensku úrvalsdeildinni í desember 2024 fyrir alvarlegt brot á ráðningarsamningi sínum. Hann hafði áður verið settur í átta vikna bann af FA vegna ummæla um Jurgen Klopp í myndbandi á samfélagsmiðlum.
UEFA bannaði hann síðan alfarið í febrúar fyrir að sverta ímynd fótboltans.