Íþróttavikan rúllar aftur af stað eftir sumarfrí á morgun, en þátturinn hóf göngu sína hér á 433.is fyrir um tveimur og hálfu ári.
Helgi Fannar Sigurðsson stýrir skútunni einn þennan veturinn og gestir hans í fyrsta þætti eru Kári Árnason, fyrrum landsliðsmaður og yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi, og Jóhann Páll Ástvaldsson, íþróttafréttamaður á RÚV.
Í fyrri hlutanum verður hitað vel upp fyrir komandi leiki íslenska karlalandsliðsins í undankeppni HM með Kára, sem var auðvitað lykilmaður í besta landsliði Íslandssögunnar fyrir nokkrum árum.
Í þeim seinni verður farið yfir helstu fréttir og málefni líðandi stundar í heimi íþróttanna með Jóhanni.
Þátturinn verður aðgengilegur snemma í fyrramálið. Þess má geta að fyrstu þættir haustsins verða eingöngu á hlaðvarpsformi, en farið verður inn í myndver á ný við fyrsta tækifæri.