Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Leikmenn og þjálfarar íslenska kvennalandsliðsins tóku ákvörðun um að æfa ekki á keppnisvellinum í Bern í gær fyrir leik kvöldsins gegn Sviss af praktískum ástæðum. Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari sagði frá þessu á blaðamannafundi í gær.
„Við vildum ekki vera í rútu lengur en við þurftum og sleppa við tímapressuna, mega bara vera 60 mínútur úti á velli og svo: Burt með ykkur. Við gátum dólað okkur í því sem við vildum vera að gera,“ útskýrði Þorsteinn.
„Þó æfingin hafi ekki verið neitt löng vildum við bara gefa okkur tíma. Þetta var samkomulag milli þjálfara og leikmanna. Þetta hentaði okkur vel. Leikmenn eru vanir að spila á svona völlum og það er ekkert nýtt.“
Leikur Íslands og Sviss er afar mikilvægur fyrir bæði lið, en þau töpuðu gegn andstæðingum sínum í fyrstu umferð.