Sandra María Jessen spilaði með íslenska kvennalandsliðinu í kvöld sem mætti Finnum á EM í Sviss.
Sandra spilaði 62 mínútur í þessum leik en Finnland vann viðureignina 1-0 og var Ísland manni færri alveg frá 58. mínútu.
Sandra var að sjálfsögðu svekkt eftir þennan leik en bendir á að það sé enn nóg eftir af mótinu sem var að hefjast.
,,Maður er bara hundsvekktur og sár að hafa ekki fengið neitt úr þessum leik en að sama skapi veit maður að það er nóg eftir af þessu móti,“ sagði Sandra.
,,Það var mikið stress og margir leikmenn voru að spila sitt fyrsta stórmót eins og ég sjálf að byrja minn fyrsta leik á stórmóti. Það er eðlilegt að taugarnar fari aðeins að spila með mann.“
,,Þegar Hildur fær þetta seinna gula spjald þá er ekki mikið að sjá á liðinu að við séum einum færri, við erum að sækja meira ef eitthvað er og við þurfum að horfa í það jákvæða.“