Sagt er að Liverpool hafi áhuga á því að taka Kevin de Bruyne í sumar þegar samningur hans við Manchester City er á enda.
Forráðamenn City tóku þá ákvörðun að losa sig við De Bruyne í sumar og gáfu honum ekki nýjan samning.
De Bruyne hefur verið einn besti leikmaður enska boltans síðustu ár og gæti endað frítt hjá Liverpool.
De Bruyne gæti verið spenntur fyrir því enda ólst hann upp við það að styðja Liverpool. „Ég var alltaf stuðningsmaður Liverpool, öll mín fjölskylda hélt með Liverpool. Ég elskaði Michael Owen, ég var alltaf lítill og snöggur,“ sagði De Bruyne fyrir nokkrum árum.
„Ég var alltaf að líkja mér við hann. Ég leit líka upp til Zidane og Ronaldinho, þeir voru með tæknina.“